Lasagna með ítölskum pylsum

Ítalskar kryddpylsur á borð við Salsiccie eða það sem í Bandaríkjunum er kallað Sweet eða Hot Italian Sausage má nota á margvíslega vegu.  Oftar en ekki er kjötið tekið  úr pylsugörnunum og notað í t.d. pastarétti. Hér er það uppistaðan í yndislegu lasagna.Það er því í sjálfu sér óþarfi að reyna að verða sér úti um ítalskar pylsur, ekki síst þær sem þær eru sjaldséðar á Íslandi. Við einfaldlega kryddum kjötið þannig að úr verði sambærilegt kjöt og í Salsiccie og erum ekki að flækja þetta með pylsugerð.

Fyrir áhugamenn um slíkt bendum við hins vegar á þessa grein hér.

En við byrjum á því að blanda kjöt og kryddi saman:

 • 600 g grísahakk (eða hakkaður grísahnakki)
 • 1 msk fennel
 • 4 pressaðir hvítlauksgeirar
 • væn klípa af chiliflögum
 • skvetta af Sambuca (ef þið eigið það til
 • salt og pipar

Blandið þessu öllu saman.

Í þessari lasagnauppskrift er ekki hvít sósa eða það sem Frakkar kalla Béchamel og Ítalir Besciamella. Þess í stað notum við ostablöndu þar sem að RIcotta er uppistaðan. Ricotta má fá t.d. í Búrinu eða í ostaborðinu í Hagkaup í Kringlunni (endilega látið vita í kommentakerfinu ef þið vitið um fleiri staði). Og svo má líka hæglega gera sitt eigið ricotta en hvernig það er gert lýsum við hér.

En ostablandan er eftirfarandi:

 • 300 g ricotta
 • 100 g cheddar (eða annar bragðmikill ostur)
 • 1 egg

Rífið ostinn og blandið saman við ricotta og eggið í skál.

Þá er komið að því að  gera kjötsósuna en auk pylsublöndunnar þarf:

 • 5 dl tómata-passata (tómatamauk)
 • 2 lauka fínsaxaða
 • 1 dl hvítvín
 • 1 tsk þurrkað óreganó
 • 1 tsk þurrkð basil
 • ólífuolíu

Hitið ólífuolína á pönnu og mýkið laukinn í 4-5 mínútur. Blandið þá kjötinu út á og brúnið. Hellið hvítvíninu út á pönnuna og látið sjóða niður að mestu. Hellið passata á pönnuna ásamt kryddunum. Látið malla á vægum hita í a.m.k. 20 mínútur, gjarnan helmingi lengur. Athugið þó eitt. Þar sem að við erum ekki með venjulega sósu í þessu lasagna þarf að vera nokkur vökvi í kjötsósunni, hún má því ekki sjóða of mikið niður.

Loks er komið að því að raða upp í eldfast form en auk þess sem komið er þarf að auki:

 • ferskar lasagnaplötur
 • 100 g Pecorino Romano, rifinn niður á grófu rifjárni.

Byrjið á því að smyrja botninn á forminu með örlitlu af kjötsósu. Þá kemur fyrsta lagið af lasagnaplötum. Reynið að láta þær þekja botninn nokkuð nákvæmlega (þarf auðvitað ekki að vera 100%) en það er gert með því að klippa þær til með eldhússkærunum. Næstu koma 2-3 skeiðar af ostablöndunni sem dreift er yfir plöturnar og síðan lag af kjötsósu áður en næsta lag af pastaplötum er sett yfir. Svona koll af kolli en allt ættu þetta að verða um þrjú lög, þó auðvitað fari það eftir stærðinni á forminu. Efst kemur svo ostablanda, kjötsósa og loks Pecorino-osturinn. Auðvitað má nota Parmesan en Pecorino er saltari og gefur bragð sem á mjög vel við kjötsósuna.

Setjið nú álpappír yfir formið og eldið í 200 gráðu heitum ofni í 40 mínútur. Takið þá álpappírinn af og eldið í um 20 mínútur til viðbótar. Best er að láta réttinn standa í a.m.k. 10 mínútur eftir að hann er tekinn úr ofninum áður en hann er borinn fram.

Með þessu þarf virkilega gott rauðvín, t.d. Chianti Classico í hæsta gæðaflokki á borð við Brolio eða þá Rosso di Montalcino frá toppframleiðanda á borð við Poggione.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is