Grillaður lax með ferskum aspas

Grillaður lax með tómötum og ferskum aspas.
Grillaður lax með tómötum og ferskum aspas. Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson

„Grillaður lax með ferskum aspas og nýjum og sætum kirsuberjatómötum. Sósan sem fylgir smakkaði ég í fyrsta sinn hjá nágrönnum mínum, Jónasi og Hrund. Jónas sagði að ég yrði að geta heimilda um þessa sósu en uppskriftina af henni hafði hann fengið hjá eiginkonu annars kollega þegar hann var að vinna í Svenjunga í afleysingum vikunni áður,“ segir Ragnar Ingvarsson læknir og matarbloggari. 

„Þessi sósa er ansi ljúffeng. Kavíarinn gefur skemmtilega seltu og sjávarkennt bragð þegar hrognin eru sprengd. Best væri að nota ekta laxahrogn þar sem þau eru stærri en þau eru líka heldur dýr til að hafa með mánudagsfisknum þannig að ég lét mér nægja að kaupa kavíar frá Lysekil sem eru gerð úr „lumpfish“ sem á íslensku heitir hrognkelsi. Og er líka ljúffengt.
Ljómandi grillaður lax með aspas og kirsuberjatómötum með kavíarsósu
Og þetta er einfaldur matur og krafðist nær engrar fyrirhafnar. Meira bara uppröðun. En litirnir eru fallegir og maturinn bragðgóður eftir því.“
Aðferð:
Við erum bara tvö fullorðin í húsinu um þessar mundir þannig að skammtarnir voru hóflegir. 600 gramma laxaflak var penslað með jómfrúarolíu, saltað og piprað og lagt í ofnskúffu. Safa úr hálfri sítrónu hellt yfir.

Svo var 250 gr af kirsuberjatómötum, „on the vine“, raðað í kring og fimmtán aspasspjót. tvær til þrjár msk af jómfrúarolíu var hellt yfir grænmetið og það líka saltað og piprað.

Grillið var blússhitað og bakað á beinum hita í 12-15 mínútur. Þegar fimm mínútur voru eftir var 75 ml af hvítvíni hellt yfir grænmetið og soðið upp.

Sósan var afar einföld. Fjórum matskeiðum af sýrðum rjóma var hrært saman við eina kúfaða teskeið af svörtum kavíar og jafnmikið af rauðum. Einni matskeið af dilli var bætt saman við, safa af hálfri sítrónu og svo smakkað til með salti og pipar.

HÉR er hægt að sjá nákvæmar leiðbeiningar um hvernig Ragnar bar sig að við eldamennskuna.
Laxinn settur í eldfast mót.
Laxinn settur í eldfast mót. Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert