Alvöru steik á grillið

Nanna kann sko að grilla alvöru steikur.
Nanna kann sko að grilla alvöru steikur. Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar

Það þýðir ekki að nærast á eintómum kjúklingasalötum. Maðurinn og konan þurfa steikur, allavega stöku sinnum og þá er gáfulegt að grilla þær. Það var einmitt það sem metsölubókarhöfundurinn Nanna Rögnvaldardóttir gerði á dögunum þegar hún fékk svanga gesti í heimsókn. Hún segist nefnilega ekki nenna að grilla mikið fyrir sig eina. 

„Ég var með svangt fólk sem hafði staðið í miklum framkvæmdum fyrr um daginn í mat og ég ákvað að gera svolítið vel við þau – eða reyndar aðallega við sjálfa mig. Mig langaði í alvörusteik svo að ég rölti í Nóatún og fann þar tvær vænar porterhouse-steikur í kjötborðinu.

Þær voru reyndar merktar og seldar sem T-bein-steikur en þetta eru porterhouse-steikur, það fer ekkert á milli mála. Þessu er svo sem oft ruglað saman, enda hvorttveggja bitar af aftanverðum hryggnum, en T-bein-steikin er skorin framar en porterhouse-steikin og henni fylgir þar af leiðandi minna af lundinni (lundin mjókkar fram eftir hryggnum). Porterhouse-steikin er því (finnst mér) betri biti – svo ekki kvarta ég … Þær voru þykkt skornar og vænar, hátt í 600 g hvor um sig.

Ég tók þær úr kæli um klukkutíma áður en ég kveikti á grillinu, stráði dálitlu sjávarsalti á báðar hliðar og lét þær liggja. Það er oft sagt – og ég hef oft sagt það sjálf – að það eigi ekki að salta kjöt löngu fyrir matreiðslu því saltið dragi út vökva og geri kjötið þurrara. Og það er rétt ef maður er með þunnar sneiðar, þá er oft best að salta ekki fyrirfram eða allavega ekki láta liggja lengi í söltum kryddlegi. En þetta voru þykkt skornar steikur og ég vildi draga aðeins safa úr yfirborðinu til að hafa það sem þurrast,“ segir Nanna. 

Hún kveikti á grillinu og stillti brennarana á fullt og lokaði því. Á meðan grillið var að hitna þerraði hún steikurnar vel með eldhúspappír, bar svo ögn af ólífuolíu á þær og kryddaði með nýmöluðum svörtum pipar og söxuðu rósmaríni.

„Þegar grillið var orðið eins heitt og það getur orðið (mig minnir að hitamælirinn í lokinu hafi sýnt 300°C) slökkti ég á brennaranum í miðjunni. Þetta er lítið Weber-grill með einum brennara í miðjunni og öðrum sem er allan hringinn í kringum hann. Ég lagði svo steikurnar á grillið og hafði þær yfir beinum loga að mestu en þó þannig að lundin væri nær brennaranum sem slökkt var á – þetta geri ég vegna þess að hún þarf heldur minni steikingu og þar sem ekki er hægt að grilla hana skemur en afganginn af steikinni er best að snúa kjötinu þannig að heldur minni hiti sé á lundinni.

Ég grillaði steikurnar í þrjár mínútur svona við háan hita, lokaði grillinu og lét þær vera alveg óhreyfðar. Hefði mögulega haft grillið opið ef það hefði verið sólskin og logn og mjög heitt í veðri. Þá sneri ég þeim við en lét þær vera eins og áður – lundina lengst frá beina eldinum. Grillaði þær svona í aðrar þrjár mínútur. Þá færði ég báðar steikurnar inn á miðjuna og grillaði þær áfram við óbeinan eld á lokuðu grilli í nokkrar mínútur (4-8 kannski, eftir því hvað steikurnar eru þykkar og hvað maður vill hafa þær mikið steiktar). Ég notaði hitamæli (instant-read) sem ég stakk inn í vöðvann miðjan og tók steikurnar af grillinu þegar hann sýndi 54°C.“

HÉR er hægt að lesa færsluna í heild sinni og sjá hvernig sósu Nanna bar fram með steikunum.

Steikur Nönnu Rögnvaldar.
Steikur Nönnu Rögnvaldar. Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert