Saltfiskur með tómatdöðlumauki og chorizo

Saltfiskur eins og þeir elda hann á Tapas barnum.
Saltfiskur eins og þeir elda hann á Tapas barnum.

Ísland státar af því að eiga einn besta saltfisk í heimi sem þykir herramannsmatur í löndum Suður-Evrópu. Veitingastaðurinn Tapasbarinn er þekktur fyrir saltfiskrétti sína og þar eru hnakkastykkin bara notuð. Chorizopylsa, tómatar og döðlur passa vel með saltfiskinum eins og sést á þessari uppskrift.

450 g saltfiskhnakki skorinn í 4 bita (mælum með saltfiskhnakkanum frá Ektafiski)

Aðferð:

Fiskurinn er pönnusteiktur á roðhliðinni fyrst í þrjár eða fjórar mínútur þar til roðið er orðið örlítið stökkt. Honum er síðan snúið við og steiktur í tvær og hálfa mínútu, stærð og þéttleiki steikarinnar getur breytt tímanum mikið, langbest er að hafa hann örlítið hráan í miðjunni, frekar blautan og finna fyrir flögunum í fiskholdinu.

Kartöfluskífur nr. 1

1 stór bökunarkartafla (skorin í fjórar sneiðar með hýðinu á)

Aðferð:

Bökunarkartaflan er sett í ofnskúffu með 2 msk af smjöri og 1 msk hvítlauksolíu, maldonsalti og pipar og fjórum greinum af garðablóðbergi. Allt bakað við 200 gráður í 30 mínútur.

Chorizo skorið í þunna bita og grillað eða pönnusteikt. Þegar olían byrjar að losna frá kjötinu snýrðu því við og steikir á hinni hliðinni. Á milliháum hita, mjög gott að grilla vel þar til endarnir eru orðnir vel stökkir.

Kartöfluskífan er lögð á disk, msk af tómatdöðlumaukinu ofan á. Saltfiskurinn lagður ofan á maukið og tvær sneiðar af chorizoinu lagðar ofan á. Mælum með að bera ferska steinselju og/eða salat fram með réttinum.

Tómatdöðlumauk

350 g döðlur

4 rif hvítlaukur

2 greinar garðablóðberg

2 dl rauðvín

1 kg tómatar í dós

salt og pipar

Aðferð:

Allt hráefnið er sett saman í pott og soðið á lágum hita í tvær klukkustundir eða þar til það er orðið mjúkt. Smakkað til með salti og pipar.

mbl.is