Súkkulaðigrautur fyrir upptekna

Súkkulaðigrautur með bláberjum.
Súkkulaðigrautur með bláberjum. mbl.is/Marta María

Hefur þú sjaldnast tíma til að borða morgunmat heima hjá þér og ertu mikið á ferð og flugi? Ef þú ert í ofanálag sælkeri þá er þetta morgunmaturinn fyrir þig.

Um er að ræða súkkulaðigraut með chia-fræjum og bláberjum. Aðaluppistaðan í grautnum er möndlumjólk, vanilluduft og kanill og svo koma chia-fræin eins og himnasending og veita fyllingu. Það sem er gott við chia-fræ er að þau eru bæði próteinrík og innihalda mikið af amínósýrum. Þótt við eigum alls ekki að telja hitaeiningar daginn út og inn þá má samt sem áður minnast á það að chia-fræ innihalda fáar hitaeiningar.

1 bolli vatn

12 möndlur

2-3 döðlur

2 msk hreint kakóduft

1 tsk vanilluduft

1 tsk kanilduft

3 msk chia-fræ

Allt sett í blandara og þeytt saman, nema chia-fræin, þau eru hrærð út í eftir á og það tekur um það bil fimm mínútur að fá þau til að stækka um 12%. Svo er grauturinn skreyttur með ferskum bláberjum.

HÉR er uppskrift að morgungraut sem klikkar heldur ekki.

mbl.is