Sjónvarpsþættir Læknisins í eldhúsinu sýndir á mbl.is

Ragnar Freyr Ingvarsson í eldhúsinu.
Ragnar Freyr Ingvarsson í eldhúsinu.

„Þetta voru sjónvarpsþættir teknir upp í samvinnu við góða vinkonu mína úr menntaskóla, Gunnhildi Gunnarsdóttur og framleiðslufyrirtækið hennar Bjarma. Hún hafði samband við mig og sagði mér að SkjárEinn hefði áhuga á því að taka þetta upp. Og verandi nett athyglissjúkur þá fannst mér þetta bara ákaflega áhugavert,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson en sjónvarpsþættirnir voru teknir upp í fyrra og sýndir á SkjáEinum.

„Það var einkennilegt að vera í tökum fyrir sjónvarp, það verður að segjast. Ég hafði náttúrlega aldrei gert neitt þessu líkt! Ég var stressaður í fyrstu tökunum og eina orðið sem ég heyrði var, stopp, Ragnar - slakaðu á. En svo held ég að þetta hafi tekiast á endanum! En hvað veit ég - ég er bara gigtarlæknir,“ segir hann.

Það var stuð á tökustað!
Það var stuð á tökustað!

Ragnar Freyr segir að það hafi verið einstaklega lærdómsríkt að gera matreiðsluþættina.

„Verandi duglegur neytandi svona sjónvarpsefnis var alveg ljóst að ég hafði ekki eina einustu hugmynd um hversu mikil vinna þetta var, hversu margir lögðu hönd á plóginn en eins og á sjúkrahúsinu - þá þarf góða samvinnu til að fá góða niðurstöðu! Og á endanum hófst þetta.“

Eru planið að taka upp fleiri þætti?

„Hvað framtíðin ber í skauti sér veit ég ekki - ég væri alveg til í að gera meira sjónvarp - þetta var svo skemmtilegt. Það gaf mér ótrúlega mikið að eiga tækifæri að ná til fólks á öðrum vettvangi en með bloggi og bókaskrifum. Það er svo mikilvægt að fólk gefi sér tíma til að elda góðan mat fyrir fólkið sem það elskar hvað mest. Eldhúsið og matarborðið eru mikilvægustu staðirnir á heimilinu. Og það er það sem ég vil koma til skila - gleðinni sem er fólgin í því að elda fyrir ástvini sína.“

Takið eftir því hvernig pottarnir voru hengdir í loftið til …
Takið eftir því hvernig pottarnir voru hengdir í loftið til að skapa stemningu.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, lagði læknastarfið á hilluna fyrir pólitíkina. Myndir þú leggja læknastarfið á hilluna fyrir sjónvarpsferilinn?

„Nei, ég væri ekki til í að hætta að vera læknir. Það eru forréttindi að fá að starfa sem læknir og reyna að hjálpa fólki. Því mun ég aldrei hætta! En það er líka stórskemmtilegt að eiga áhugamál sem fólk hefur gaman af að fylgjast með.“

Læknirinn í eldhúsinu 1. þáttur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert