Einfaldara verður Milanese varla

Kjúklinga Milanese með hleyptu eggi er það sem Óskar töfrar fram á 5 mínútum í þætti dagsins af Korter í kvöldmat, en rétturinn er hans útgáfa af ítalskri klassík.

Uppskrift miðast við 4

Kjúklingabringa er lögð á tvöfalt lag af plastfilmu, skorin eftir endilöngu og flett. Því næst er annað lag af plastfilmu lagt yfir kjúklinginn. Bringan er barin með potti og flött út þar til hún er orðin mjög þunn og á stærð við stóra hönd eða örlítið stærri.

Tvö egg eru brotin í skál og hrærð með salti og pipar. Útflatti kjúklingurinn er látinn liggja í eggjablöndunni á meðan grænmetið er útbúið.

Paprika, kúrbítur, laukur og hvítlaukur eru skorin gróflega niður og sett í eldfast mót ásamt salti, pipar, ólífuolíu og ögn af ediki, og sett inn í 200° heitan ofn í 10 mínútur.

Með kjúklingnum eru borin fram hleypt egg, sem er alls ekki jafn flókið að elda og kann að virðast, en hafa ber í huga að það er best ef eggin hafa náð stofuhita áður en þau eru elduð.

Í sjóðandi vatn í potti er sett ögn af salti, 1-2 msk af ediki og slökkt er undir pottinum. Því næst er hrært kröftuglega með skeið í pottinum til að koma hreyfingu á vatnið, eggin brotin út í og látin liggja í pottinum í um 3 mínútur. Þá er hvítan öll orðin stíf en rauðan enn fljótandi.

Því næst er kjúklingurinn eldaður. Stór panna er hituð með smjöri, kjúklingabringurnar eru teknar úr eggjablöndunni, velt upp úr raspi og settar á heita pönnuna. Bringurnar þurfa ekki langan steikingartíma, en það er lykilatriði að hafa pönnuna svo heita að rasphjúpurinn nái að brúnast og verða stökkur.

Þá er allt reiðubúið og lítið annað eftir en að bera fram. Kjúklingurinn er settur á disk ásamt grænmeti og hleypt egg ofaná. Fljótandi eggjarauðan kemur í stað sósu í þessum rétti, en það er ekki verra að dreypa smá ólífuolíu yfir líka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert