Kjúklingur með austurlenskum blæ

Óskar Finnsson matreiðslumeistari matbýr girnilegan kjúkling með austurlenskum blæ. Þessi uppskrift er fyrir fjóra. 

„Fyrsta skrefið er að sjóða hrísgrjónin, þetta má hæglega gera fyrirfram þar sem hrísgrjónin fara út í sósuna og hitna þar.

Þá er það kjúklingurinn, sem er skorinn í um 1cm þykka strimla og steiktur á pönnu með ólífuolíu. Hann er kryddaður með  salti, pipar og smá karrí,“ segir Óskar. 

  • Í þessari uppskrift eru notuð úrbeinuð kjúklingalæri sem eru bragðmikil og „djúsí“, en ef bringur eru það sem hendi er næst má vel nota þær í staðinn.
  • Ef úrbeinuð læri fást ekki er hægt að kaupa þau á beini og úrbeina heima. Þá þarf um 30% meira magn eða 900 g.

„Á meðan kjúklingurinn steikist eru paprika og laukur skorin niður. Þegar kjúklingurinn er orðinn brúnaður á öllum hliðum er hann settur á eina hlið pönnunnar og hún dregin til svo sá hluti sem geymir kjúklinginn standi út fyrir helluna. Grænmetið er sett á hinn hlutann sem enn situr á heitri hellunni og er léttsteikt með smá ólífuolíu.

Þegar grænmetið er tilbúið er engifer rifið yfir auk hvítlauks, ef vill, og öllu á pönnunni hrært vel saman. Hér er líka gott að bæta við smá chili-dufti eða chili-olíu ef menn eru í skapi fyrir aðeins kraftmeiri kjúklingarétt,“ segir hann. 

„Nú er red curry-sósunni blandað saman við herlegheitin ásamt dós af kókosmjólk og hrært vel í. Þetta er svo látið malla í 4-5 mínútur.

Þá er komið að því að skera eplið í grófa teninga, sem fara út í að þessum mínútum liðnum ásamt hrísgrjónunum, og jafnvel smá tabasco-sósu eftir smekk. Grænu eplin eru heldur súr og ef menn eru almennt hrifnir af því að hafa réttinn sætari er gott að bæta hér við ögn af hunangi.

Það er gott að láta réttinn standa í um eina mínútu áður en hann er borinn fram, þann tíma má jafnvel nota í að saxa smá kóríander og strá yfir ef hann er til. Kóríanderinn er alls ekki nauðsynlegur en hann bæði lítur vel út og fer ljómandi vel með austurlenskum réttum.“

HÉR má finna fleiri þætti af Korter í kvöldmat

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert