Ferskt ravioli í ljúfri parmesanostasósu

Óskar Finnsson eldar pasta af hjartans list í sínum nýjasta þætti. Þessi uppskrift er fyrir fjóra. 

„Fyrst af öllu setjum við vatn yfir í potti fyrir grænmeti og síðar pasta enda óþarfi að nota tvo potta þegar einn dugar prýðilega.

Gulræturnar eru flysjaðar, skornar í grófa bita og settar út í pottinn þegar vatnið er byrjað að krauma. Gulræturnar þurfa að sjóða í um 3-4 mín. Því næst skerum við brokkolí í grófa bita og þegar bætum því út í pottinn.  Brokkolíið þarf að sjóða í um 2-3 mínútur.

Laukur og paprika eru skorin niður og mýkt á pönnu með ólífuolíu og hvítlauk. Á meðan að það mallar veiðum við brokkolíið og gulræturnar upp úr pottinum og setjum til hliðar,“ segir Óskar. 

„Pottinn höfum við áfram á hellunni því vatnið er notað til að sjóða pastað, sem fer því næst út í og er soðið eftir leiðbeiningum.

Á meðan að pastað sýður er sósan græjuð. Rjómanum er hellt saman við laukinn og paprikuna á pönnunni og kryddað með salti, pipar og rósmaríni. Þetta gefur gott grunnbragð en til að fullkomna sósuna bætum við vel af rifnum parmesan yfir og hrærum.

Út í þetta fara gulræturnar, brokkolíið og pastað þegar það er soðið. Öllu er hrært vel sama og rétturinn borinn fram. Það er svo ekki verra að eiga smá auka parmesan til að strá yfir diskana til að gefa þessu glæsilegt útlit.“ 

HÉR má finna fleiri þætti af Korter í kvöldmat

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert