Mozzarella-fylltar kjötbollur

Ítalskar kjötbollur fylltar með mozzarellaosti, bornar fram með taglietelle pasta og tómat- pastasósu er það sem Óskar Finnsson býður upp á í Korter í kvöldmat í dag. „Þetta er alveg eldsnöggur réttur og ótrúlega einfaldur,“ segir kokkurinn sjálfur.

Uppskrift

Laukurinn er saxaður mjög smátt og settur í skál ásamt hakki, söxuðum chili, 3 msk af brauðraspi, 1 eggi, rósmaríni og oregano (hér má breyta til og nota t.d. basiliku og timjan) ásamt söxuðum eða rifnum hvítlauk.

Þessu er öllu blandað vel saman og þau verkfæri sem eru best til verksins eru hreinar hendur. Þegar blandan er orðin jöfn eru bollurnar mótaðar í hæfilegar stærðir. „Þær mega ekki vera of stórar, þá er þetta of mikil kjöthlussa.“

Galdurinn felst í því að setja litlar mozzarella kúlur inn í kjötbollurnar. Besta leiðin til að fylla þær er að taka mótaða kjötbollu, stinga gat nánast í gegnum hana með fingrinum, setja ostinn inn, loka fyrir og rúlla bolluna aftur saman svo hún sé jöfn.

Óskar steikir kjötbollurnar á pönnu með ólífuolíu. Þegar steikingin hefst þrýstir hann aðeins ofan á bollurnar svo fletirnir sem snerta pönnuna verði sem stærstir, „ég ýti aðeins ofan á, ég vil fá þetta krispí og stökkt.“

Bollurnar eru brúnaðar á pönnunni og svo settar í ofnfast mót og inn í ofn í 10 mínútur við 180°.

Á meðan að bollurnar bakast er tíminn notaður til að elda pastað og sósuna. Pastað sem Óskar notar í þessari uppskrift er tagliatelle, það er soðið í vatni með smá ólífuolíu og salti í 1 mínútu skemur en stendur á pakkanum.

„Af því að við erum að elda í einum, grænum hvelli þá finnst mér alveg brilliant að vera með tilbúna sósu sem ég laga til með einhverju sem ég á heima,“ segir Óskar. Hér notar hann tilbúna tóma- pastasósu sem hann hitar í potti og bragðbætir með ólífuolíu, 4 dropum af Tabasco sósu, rifnum hvítlauksgeira og smá rjóma.

Þegar sósan er tilbúin ættu kjötbollurnar og pastað að vera það líka. Pastað er fært á fat, kjötbollunum raðað á pastað, sósunni dreift yfir og rétturinn er borinn á borð.

mbl.is