Fylling er galdurinn að „djúsí“ bringum

Kjúklingabringurnar eru fylltar með sveppum og beikonosti sem tryggir að þær verði fullkomlega safaríkar. Óskar kokkur ber hvítkáls-„pasta“ og brokkolí fram með kjúklingnum, en hann passar ekki síður vel með kartöflum eða salati.

Uppskrift

„Við byrjum á því að skera djúpar rákir í kjúklinginn, galdurinn er að fara ekki alveg í gegnum bringurnar,“ segir Óskar Finnsson kokkur. Fyllingin fer svo í rákirnar, bæði gefur hún kjúklingnum unaðslegt bragð og heldur honum safaríkum.

Sveppirnir eru skornir smátt og steiktir á pönnu með vel af olíu í 2–3 mínútur. Þá er 1 hvítlauksrif rifið út á pönnuna og sveppirnir kryddaðir með pipar og örlitlu salti, það þarf ekki mikið því osturinn er saltur. Þegar sveppirnir eru orðnir brúnir eru 3 ríflegar matskeiðar af ostinum settar út á pönnuna og öllu blandað vel saman.

Kjúklingabringurnar eru settar í ofnfast mót og um ½ matskeið af fyllingu sett í hverja rák. Ekki hafa áhyggjur þótt fyllingin standi aðeins upp úr, hún er sérlega bragðgóð og gott að hafa nóg af henni. „Nú er bara tvennt eftir: Annars vegar er að krydda með pipar og svo setjum við paprikuduft yfir, ef þið eigið það. Þetta er alls ekki nauðsynlegt en það gefur réttinum fallegri lit.“ Kjúklingurinn fer svo beint inn í ofn við 180° í 15–20 mínútur.

Kál í staðinn fyrir pasta

„Meðlætið með kjúklingum getur ekki verið einfaldara,“ segir Óskar. Kjarninn er skorinn úr hvítkálinu og settur til hliðar. Kálið er svo skorið í þunnar ræmur, eða rifið í matvinnsluvél. Kálið er tætt í sundur og sett á heita pönnu með ólífuolíu og þegar það er aðeins byrjað að linast er hunangi, hvítvíni eða eplaediki og dijon-sinnepi bætt á pönnuna og öllu hrært vel saman. „Til að mýkja hvítkálið aðeins meira set ég ½ dl af vatni út í, kálið mýkist við gufuna sem kemur af vatninu. Langir hvítkálsstrimlarnir minna um margt á pasta en eru mun heilsusamlegri.

Brokkolíið er skorið í litla bita og sett í sjóðandi vatn með smá salti og soðið í 3–4 mínútur.

Kjúklingurinn er tekinn úr ofninum. Ef kjöthitamælir leynist í eldhúsinu má fullvissa sig um að hann sé tilbúinn, kjúklingur er fulleldaður við 75°. „Við sjáum það líka á safanum, þegar það er farið að fljóta örlítið í botninn þá er kjúklingurinn tilbúinn.“

Þá er ekkert eftir nema að færa kjúklinginn og grænmetið á fat og bera fram. Það þarf enga sósu með þessum rétti, bragðmikil ostafyllingin kemur í staðinn fyrir hana.

Svo mjúkur að allir vilja borða hann

„Það er að sjálfsögðu hægt að hafa þetta með hverju sem er, kartöflum, fersku salati eða einhverju sem ykkur þykir gott. Aðalatriðið er hvernig við vinnum með kjúklinginn svo hann verði safaríkur. Hann á að vera akkúrat svona, svo mjúkur að alla langi til að borða hann!“

mbl.is