Omelettuveisla

Ásdís Ásgeirsdóttir

Súrsætur kjúklingaréttur og dýrindis eggjakaka er meðal þess sem má gera úr afgöngum af bragðmikla kjúklingaréttinum sem sýndur var í síðasta þætti af Korter í kvöldmat (ef einhverjir afgangar eru). Réttirnir eru sem áður ótrúlega einfaldir og fljótlegir, frábærir til að töfra fram eftir annasaman dag.

Omelettuveisla

Skerið afganga af kjúklingi, fenneli og gulrótum í litla bita og hitið í örbylgjunni. Létthrærið (ekki píska) eggin og saltið og piprið. Takið stærstu pönnu heimilisins og hitið á henni ólífuolíu. Þegar hún er orðin meðalheit er eggjunum hellt út á og látin steikjast. Þegar eggjakakan er steikt, hellið þá kjúklingaafgöngunum yfir helminginn af omelettunni og síðan er omelettunni lokað. Færið síðan varlega á disk og skerið í tvo helminga (uppskriftin dugar einmitt fyrir tvo) og berið fram með steinselju og gúrku mojito-sósunni.

Súrsætt kjúklinga-„tvist“

Hellið ólífuolíu á pönnu og setjið chili út á. Þar næst eru afgangarnir settir á pönnuna og þessu velt vel saman. Hellið úr einni krukku af súrsætri sósu út á pönnuna og látið suðuna koma upp í 2–3 mínútur þannig að bragðið af kjúklingaafganginum blandist sósunni. Skreytið með steinselju og berið á borð fyrir fjölskylduna ásamt hrísgrjónum. Rétturinn dugar fyrir fjóra og því tilvalinn fyrir margar fjölskyldur.

Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is