Einfaldari cordon bleu er ekki hægt að gera

Cordon bleu er án efa nokkuð sem margir hafa séð tilbúið í frystum verslana. Það er ótrúlega auðvelt að gera þennan rétt sjálfur, og hann verður mun bragðbetri. Óskar Finnsson kokkur töfrar hér fram einfalda og ljúffenga útgáfu af þessum vinsæla rétti og ber fram með rjómalöguðum gulrótum og rófum.

Uppskrift

Rófa og gulrætur eru flysjaðar og skornar í grófa bita. Þær eru settar í pott og soðnar með smá salti í 15 – 20 mínútur, eða þar til þær eru soðnar í gegn. 

Egg er brotið í skál og hrært ásamt salti, pipar og örlitlum rjóma eða mjólk. Brauðraspið er sett í vítt fat svo auðvelt sé að vinna með það.

Þá er búið að undirbúa og ekkert því til fyrirstöðu að vinda sér í kjötið. Óskar notar hér svínahnakka, en það má vel notað aðra hluta af svíninu eins og ribeye eða svínahrygg.

Kjötið er skorið í þunnar sneiðar sem eru settar í plastpoka og barðar með potti þar til þær eru orðnar þunnar og nokkuð jafnar. Kjötið er kryddað með pipar og örlitlu salti, og yfir það eru lagðar sneið af osti og sneið af skinku (það þarf aðeins lítið salt á kjötið því skinkan er sölt). Önnur kjötsneið er lögð yfir og þrýst létt á.

„Núna kemur að erfðasta hlutanum þar sem þið þurfið pínulítið að vanda ykkur. Það þarf að taka þetta upp, setja varlega í eggin og koma þessu skammlaust yfir í brauðraspið. Við setjum vel af raspinu ofan á og svo þrýstum við.“ 

Panna með nóg af olíu er hituð og kjötið er brúnað báðum megin, „við setjum vel af olíu því raspið drekkur í sig olíuna og gefur þetta góða bragð. Ef sneiðarnar eru þykkar getur svo borgað sig að setja lok á pönnuna til að vera viss um að kjötið nái að eldast í gegn.“

Þegar rófurnar og gulræturnar eru soðnar er 80–90% af vatninu hellt úr pottinum og við bætist 2 tsk. af hunangi og 1 tsk. af sinnepi. Potturinn fer aftur á pönnuna, ½ dl af rjóma bætt við og þetta soðið saman svo bragðið af hunanginu og sinnepinu blandist vel saman og verði sem allra best með grænmetinu. Þetta ætti að taka nokkrar mínútur, eða þar til kjötið er fulleldað.

Þegar kjötið er komið með stökka skorpu og eldað í gegn er það svo borið á borð með grænmetinu, „einfaldari cordon bleu en þennan er ekki hægt að gera!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert