Pabbi bakar jólasmákökur

Gunni Helga er stórskemmtilegur maður. Hann er orkumikill leikari sem margir stubbar muna eftir úr sjónvarpsþáttunum Gunna og Felix í Ríkissjónvarpinu. Gunni er þar að auki leikstjóri og síðast en ekki síst verðlaunarithöfundur. Nýjasta barnabók hans Pabbi prófessor situr á toppi metsölulista Eymundsson yfir mest seldu barnabækurnar. Gunni Helga er sjálfur frábær pabbi og mikill prófessor í eldhúsinu og hefur komist að þeirri niðurstöðu að soðin ýsa sé versti matur allra tíma! Hér deilir Pabbi prófessor með okkur uppskrift að jólasmákökum sem gætu hugsanlega bjargað jólunum. Allavega vikunni!

Hvað er skemmtilegast við að skrifa barnabækur?
Það er nú svo margt. Mér finnst mjög gaman að búa til söguþráðinn. Ég fer alltaf og tek viðtöl við fólk sem er sérfræðingar í því sem ég er að skrifa um í það og það sinnið. Í ár hitti ég nokkra prófessor uppi í háskóla, talaði við Arnar Helga hjólastólasnilling og síðast en ekki síst hana Örnu Sigríði sem hjálpaði mér mest af öllum því ég spurði hana mjög erfiðra og persónulegra spurning um það hvernig það er að vera ung kona í hjólastól. 

Ert þú barnalegur?
Er það ekki augljóst?

Kannt þú að elda?
Já, ég er DUGLEGUR að elda.  Ég er ekki sérstaklega snjall kokkur en hef upp á síðkastið verið að þora að prufa nýja hluti. Sem er mjög gaman. Undanfarin tvö ár eða svo hef ég stundum lent í því að vera mjög ánægður með árangurinn og lýsi því þá yfir að þetta sé besta pasta sem ég hef smakkað á ævinni, eða besti kjúklingurinn eða besti laxinn. Fjölskyldan er farin að hlæja að mér!

Hvað er „heimilismatur“ fyrir þér?
Það er nú það! Þegar ég hugsa um heimilismat sé ég fyrir mér kjötbollur og versta mat allra tíma: soðna ýsu. Ég ólst upp á soðinni ýsu og ætla ALDREI að fá mér soðna ýsu aftur. ALDREI!!! Hinsvegar er heimilismatur heima hjá mér og sá sem strákarnir mínir hafa alist upp á kannski frekar pasta, hamborgarar, kjúklingur og eitthvað svoleiðis.

Hvað maularðu helst á meðan þú vinnur/skrifar?
Döðlur. Ég er ótrúlega oft með döðlupoka við hliðina á tölvunni. Steinalausar, þurrkaðar döðlur. Ég fæ ekki nóg af þeim. Þær eru komnar inni í allar uppskriftir hjá mér, öll sallöt og bara allt. (og já, sallat er skrifað með tveimur ellum. Ég sem rithöfundur hef ákveðið það!) (síðasti svigi á að vera með)

Hvaða uppskrift ætlar þú að deila með okkur?
Uppskrift að súkkulaðibitakökum úr Stóru smákökubókinni. Ástæðan er sú að Pabbi prófessor bakar súkkulaðibitakökur í samnefndri bók og það vill svo ólíklega til að þær verða góðar hjá honum. Reyndar verð ég þó að segja að ég er búinn að baka fjórar sortir úr þessari bók og sítrónukökurnar eru klikkaðar. Eiginlega ólöglega góðar.

Eitthvað sem þú vilt bæta við?
Já, ég við hvetja fólk til að lesa Pabba prófessor með krökkunum sínum og ræða bókina við þá. Þetta er ekki allt grín og glens sko heldur er djúpur tónn undir hlátrinum.  Já, og svo þarf náttúrlega að ræða þetta mál með jólasveininn. Ókeibæ.

Súkkulaðibitakökur

Þessar eru klassískar og sívinsælar. Auðvelt er að gera fleiri en eina útgáfu, t.d. með því að nota M&M í deigið eða dreifa kókosmjöli yfir í lokin - og þannig leika sér með þessa uppskrift. 

200 g   smjör

250 g   púðursykur

300 g   hveiti

1 tsk.    matarsódi

1-2 tsk. vanilludropar

2 stk.    egg

150 g   súkkulaði

Uppskriftin gefur um 75 kökur.

Hitið ofninn í 180°C

Hrærið saman smjör og sykur. Bætið eggjum út í hræruna og síðan þurrefnunum og vanilludropunum. Brytjið súkkulaðið í smábita og hrærið þeim saman við deigið. Ef deigið er of lint og klístrað má stinga því inn í ísskáp í klukkutíma. Búið svo til toppa og hafið gott bil á milli þeirra á plötunni. Bakið kökurnar í 8-9 mínútur við 180°.

Sumum finnst gott að nota skírt smjör, þá renna kökurnar síður út. Smjör er skírt þannig að það er brætt og því hellt í djúpan disk. Þegar það er storkið er smjörlokið tekið af í einu lagi og síðan skafið vandlega neðan af því. Sé þessi aðferð notuð má hugsanlega minnka hveitimagnið aðeins, um 30-50 g.

Í staðinn fyrir að skera niður súkkulaðiplötur má nota súkkulaðidropa eða jafnvel M&M. Það má líka skipta deiginu í tvennt og nota súkkulaði í helminginn og M&M í hinn helminginn. Notið þá 75 g af súkkulaði en 100-125 g af M&M.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert