"Pulled pork" tacó

Snorri Guðmundsson

Snorri er í stuði! Mexíkóst grísa-tacó er fullkomið með ísköldum bjór um helgina.

„Gott pulled pork er eitt af því besta sem ég fæ, það er alveg hreint og klárt, enda er það oft á matseðlinum hérna í Laugardalnum. Þetta er klárlega uppáhalds pulled pork uppskriftin mín og soðið er algjör bragðsprengja sem ég gæti næstum því drukkið eintómt (ég ætla samt ekki að gera það, slakið á).

Oftast nota ég svínabóg þar sem maður fær mest af kjöti úr honum sem er frábært að pakka vel í lofttæmdar umbúðir og eiga nokkra passlega skammta inni í frysti fyrir kvöldin sem maður nennir ekki að elda.
 
Í þessa uppskrift nota ég hinsvegar úrbeinaðan svínahnakka sem tekur styttri tíma en bógurinn og er hægt að rífa beint án þess að þurfa að hreinsa frá fitu og bein eins og af bógnum.

Pulled pork er hægt borða á ótal vegu en að búa til tacos er án vafa ein sú auðveldasta en jafnframt ein sú ljúffengasta að mínu mati og þá sérstaklega með þessari ótrúlega einföldu sambal oelek sósu!“

- Pulled pork -
1 til 1.2 kg úrbeinaður svínahnakki í heilu lagi
1 teskeið cumin
1 teskeið reykt paprika
1 teskeið hvítlauks duft (garlic powder)
1 teskeið oregano
1 teskeið púðursykur
1/2 teskeið borðsalt
1 gulrót (100 grömm)
4 stór hvítlauksrif (20 grömm)
1 lítill rauðlaukur (120 grömm)
2 matskeiðar sambal oelek
2 teningar kjúklingakraftur
1-2 bollar vatn
- Rauðkál í sýrðum rjóma -
180 grömm rauðkál
40 grömm 10% sýrður rjómi
12 kóríander stilkar (sirka 8 grömm)
Salt eftir smekk
- Sambal oelek sósa -
130 grömm 10% sýrður rjómi
1 matskeið sambal oelek
1/4 teskeið cumin
Salt og pipar eftir smekk

- Til að setja saman -
8 mini tortillur
15 kóríander stilkar / bara laufin (sirka 6 grömm)

Blandið saman cumin, reyktu paprikunni, hvítlauks duftinu, oregano, púðursykrinum og borðsaltinu í skál og hrærið vel saman.  

Nuddið kryddblöndunni vel yfir svínahnakkann og setjið í 26CM steypujárnspott með loki eða 26CM ofnfast mót með háum köntum.  Ef þið notið ofnfast mót án loks þurfið þið að hylja mótið vel með álpappír áður en það fer inn í ofn.

Skerið gulrótina og rauðlaukinn gróflega, kremjið hvítlauksrifin og komið öllu fyrir meðfram kjötinu ásamt 2 matskeiðum af sambal oelek og 2 muldum kjúklingakrafts teningum.
Bætið við nægu vatni til að hylja 3/4 af svínahnakkanum og setjið inn í 120° ofn í 5 klukkustundir eða þar til hægt er að rífa kjötið auðveldlega í sundur með 2 göfflum.

Leyfið kjötinu að jafna sig í 30 mín áður en þið rífið það í sundur og ausið nokkrum skeiðum af soðinu yfir kjötið eftir að það er rifið og blandið vel saman.

Til að gera rauðkálið skerið þið það í þunna strimla ásamt kóríandernum (líka stilkana) og hrærið saman við sýrða rjómann.  Saltið eftir smekk.

Til að gera sambal oelek sósuna hrærið þið öll sósuhráefnin saman og saltið og piprið eftir smekk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert