Svartbaunaskál frá Kúbu

Girnileg svartbaunaídýfa frá Kúbu.
Girnileg svartbaunaídýfa frá Kúbu. Skjáskot af eldhusatlasinn.is

Harpa Stefánsdóttir er konan á bak við Eldhúsatlasinn.is en síðan er lokaverkefni hennar í hagnýtri menningarmiðlun. „Vefsíðan Eldhúsatlasinn: Grænmetisréttir frá 196 löndum er tilraun til þess að vekja áhuga og athygli á mikilvægi þess að minnka neyslu á kjöti og öðrum dýraafurðum í nafni umhverfisverndar og dýravelferðar. Miðlunarverkefnið snýst um það að nota matarbloggsformið til þess að sýna fram á hvað grænmetisfæði getur verið fjölbreytt og skemmtilegt," segir Harpa sem tekur einnig allar myndir sjálf. Sjón er sögur ríkari. Hér að neðan er svo ein af hennar uppáhalds uppskriftum af síðunni.

„Frijoles negros er klassískur kúbanskur réttur úr svörtum baunum. Alveg ótrúlega djúsí og góður vegan réttur. Það fer dágóður tími í eldamennskuna en mér finnst það vel þess virði. Svartar baunir eru meinhollar og þeir sem vilja fara alla leið í hollustunni geta borið réttinn fram með hýðishrísgrjónum og lífrænum nachosflögum.“

Frijoles negros

• 1 ¼ bolli svartar baunir
• 4 ½ bollar vatn
• 2 grænar paprikur
• Stór laukur
• 2 hvítlauksrif
• 1 tsk cumin
• 1 tsk oregano
• 1 ½ msk rauðvínsedik
• ¾ bolli rauðvín
• 1 tsk sykur
• 1 lárviðarlauf
• 2 msk ólívuolía
• Salt og svartur pipar eftir smekk

Leiðbeiningar

1. Leggið baunirnar í bleyti yfir nótt eða samkvæmt leiðbeiningum á pakka.

2. Hellið vatninu af og setjið baunirnar í pott.

3. Setjið 4 1/2 bolla af nýju vatni og 1 msk. af ólívuolíu. Látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og setjið lokið yfir og látið baunirnar sjóða þar til þær verða meyrar eða í um það bil klukkustund. Það er mikilvægt að salta baunirnar ekki á þessu stigi og það má ekki hella vatninu af baununum.

4. Saxið niður laukinn og paprikuna og steikið í ólívuolíu.

5. Bætið við hvítlauk, salti og pipar eftir smekk og steikið í 1-2 mínútur í viðbót.

6. Hellið baununum (með suðuvatninu) út á pönnuna og bætið við rauðvíni, ediki, lárviðarlaufi, cumini og oregano. Setjið lok yfir og leyfið réttinum að krauma í 20 mínútur. Hrærið í af og til.

7. Fjarlægið lárviðarlaufið. Takið ½ bolla af baunum og búið til þykkt mauk og bætið aftur út í réttinn. Þá verður hann þykkari og betri. (Til dæmis með töfrasprota eða mortéli).

8. Bætið við 1-2 tsk. af sykri og meira salti og pipar eftir smekk.

9. Takið pönnuna af hellunni, dreifið einni msk. af ólívuolíu yfir réttinn, setjið lokið á og látið hana standa í 10 mínútur.

Fyrir ca. 4 – 5

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert