Graflaxblanda – jólagjöf veiðimannsins

mbl.is/Ofeigur Lydsson

Graflaxblanda – jólagjöf veiðimannsins

„Það er einfalt og gaman að grafa sinn eigin lax og algjör óþarfi að kaupa hann dýrum dómi í búð. Margir eru með lax á jólunum svo upplagt er að gera þessa blöndu til að grafa sinn eigin lax,“ segir Linda Björk Ingimarsdóttir, snillingur í heimagerðum jólagjöfum. Linda deilir með okkur ljúfengum heimalöguðum uppskriftum fyrir jól en hér má sjá aðra góða uppskrift frá henni að súkkulaði-snjóboltum.  

„Þessi graflax-blanda er búin að vera í vinnslu nokkuð lengi og hefur tekið töluverðum breytingum gegnum árin en loksins tel ég hana vera orðna fullkomna. Þetta geymist vel og ég lofa að þessi graflax mun slá vel í gegn og líklegt að hringt verði til að fá uppskriftina fyrir næstu jól.“

Kryddblandan er tilvalin gjöf til veiðimanna og -kvenna.
Kryddblandan er tilvalin gjöf til veiðimanna og -kvenna. mbl.is/Ofeigur Lydsson

3 msk. þurrkað dill

1 msk. dillfræ

1/2 msk. fennelfræ

1/2 msk. sinnepsfræ

1/2 msk. kóríanderfræ

½ - 1  tsk. mulinn pipar 

2 msk. gott flögusalt

1 msk. sykur

Allt sett í mortel og steytt vel saman og sett í krukku. Gott er að láta leiðbeiningar fylgja með um hvernig á að nota blönduna. Þessi uppskrift dugar á tvö stór flök af laxi.

Berið blönduna á laxinn og þekið vel, pakkið flökunum vel inn í smjörpappír og plastfilmu þar á eftir. Geymið í kæli í um 2 – 3 daga. Best er að skafa aðeins af kryddinu áður en borða á dýrðina. Ef ekki á að borða laxinn strax er hægt að geyma hann í kæli í 1-2 daga eða frysta hann.

Linda á gott safn uppskriftabóka þar sem hún leitar oft …
Linda á gott safn uppskriftabóka þar sem hún leitar oft eftir innblæstri. mbl.is/Ofeigur Lydsson
mbl.is