Fylltur kalkúnn að hætti læknisins

Bráðið Smörið og sprautan tryggir að kalkúnninn verður algjör draumur.
Bráðið Smörið og sprautan tryggir að kalkúnninn verður algjör draumur.

Ragnar Ingvarsson, læknirinn í eldhúsinu, hefur það fyrir sið að elda kalkún á jóladag. Hér er hann með skothelda uppskrift af þessum vinsæla rétti.

Fylling:

1-2 gulir laukar, skornir niður
3-4 stór hvítlauksrif
smjör
tvö græn og þroskuð epli
700 g svínahakk
brauð í sneiðum
handfylli af pekanhnetum
2-3 tsk. þurrkað timían
1 tsk. þurrkuð salvía
handfylli af ferskri flatlaufssteinselju
salt og pipar
1 msk. hlynsíróp

Laukur og hvítlauksrif steikt í 20 mínútur við lágan hita í 50 g af smjöri þar til karamellíserað.
Laukurinn færður af pönnunni og settur í stóra skál.
Eplin flysjuð, kjarnhreinsuð og skorin í bita. Steikt á pönnunni þar til hafa tekið lit, og þá færð í skálina.
Svínahakkið steikt á pönnunni upp úr smjöri eða olíu, og svo fært í skálina.
Hökkuðum brauðsneiðum bætt út í.
Pekanhnetur saxaðar gróft. Bætt í skálina ásamt timían, salvíu, saxaðri steinseljunni, salti, pipar og hlynsírópi.
Blöndunni leyft að kólna.

Kalkúnninn:
Fuglinn þrifinn, þurrkaður, innmatur lagður til hliðar fyrir sósuna.
Væn klípa af smjöri og olía hituð á pönnunni sem notuð var til að undirbúa fyllinguna
Bræðingurinn er dreginn upp í sprautu og fuglinn sprautaður í vöðvana.
Fuglinn fylltur, nuddaður með olíu, saltaður og pipraður.
Smjörbleyttur klútur lagður yfir fuglinn og bakað í hálftíma fyrir hvert kíló við 170°C hita.

Sósa:
niðurskornar gulrætur
laukur
sellerí
hvítlaukur, smátt skorinn.
innmatur
kraftur
vatn

Grænmetið saxað og steikt á pönnu þar til mjúkt. Hálsinn brúnaður að utan með grænmetinu.
Pannan fyllt með vatni, krafti bætt saman við og soðið af miklum krafti með lokið á á meðan kalkúnninn eldast.
Má búast við að bæta vatni í pottinn tvisvar eða þrisvar sinnum ef lokið er ekki nógu þétt. Soðið sigtað.
Allur vökvi sem komið hefur af kalkúninum tekinn og blandað saman við.
Slökkt undir sósunni um stund og fitan veidd af og lögð til hliðar. Fituna má nota till að búa til smjörbollu til þykkingar.
Sósan söltuð og pipruð eftir smekk.

Ragnar tekur kátur á móti mestu matarhátíð ársins.
Ragnar tekur kátur á móti mestu matarhátíð ársins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert