Franskar ostabollur sem toppa allt

Haltu í þér andanum hvað þessar eru góðar!
Haltu í þér andanum hvað þessar eru góðar! mbl.is/TM

Matarvefurinn skellti sér á námskeið í Salt-eldhúsi hjá hjónunum Sigríði Björk Bragadóttur og Sigurði Grendal þar sem þemað var franskur jólabröns. Guðdómlegar veitingar voru þar galdraðar fram með merkilega lítilli fyrirhöfn en þau hjón bjuggu í Frakklandi í nokkur ár og tóku með sér margar stórkostlegar hefðir þaðan. Þessar vatnsdeigbollur toppuðu þó flest allt í heiminum og passa fullkomlega með brönsinum eða kampavínsglasi og forréttinum. 

Ég bara legg ekki meira á ykkur, þessar bollur verða allir að smakka og stynja í kór. 

Gougéres –  franskar ostabollur

1 dl vatn
1 dl mjólk
100 g smjör
½ tsk. salt
2 dl hveiti
3-4 egg, fer eftir stærð
80 g rifinn ostur
nýmalaður pipar
múskat á hnífsoddi 

Stillið ofninn á 200°C og setjið bökunarpappír á 2 ofnplötur.

Setjið vatn, mjólk, smjör og salt í pott og sjóðið saman. Bætið hveiti út í og sláið saman, eldið áfram í 2 mínútur eða þar til hveitiblandan er orðin vel samlöguð. Kælið aðeins.

Bætið eggjum í blönduna, einu í einu, og hrærið vel í á milli. Ekki hafa áhyggjur þótt ekki gangi vel í fyrstu að hræra eggin í, það þarf bara að hræra lengur til að þau blandist vel í. Bætið nú osti, pipar og múskati út.

Setjið deigið í sprautupoka og sprautið litlum bollum á bökunarpappírinn u.þ.b. matskeið að stærð með 5 cm á milli. Stráið svolitlu af osti yfir bollurnar og bakið síðan í 20 mín eða þar til gylltar og girnilegar. Berið fram strax. Má frysta og hita upp í 180°C.

Sirrý í Salt-eldhúsi er alfræðiorðabók um matreiðslu.
Sirrý í Salt-eldhúsi er alfræðiorðabók um matreiðslu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert