Lágkolvetna blómkáls- og parmesanklattar í morgunmat

Í morgunmat má borða klattana gjarnan með avókadó og sítrónuolíu …
Í morgunmat má borða klattana gjarnan með avókadó og sítrónuolíu en með salati í hádeginu. Á kvöldin er mjög gott að vera með heita ítalska pastasósu með og jafnvel steikar sætar kartöflur og salat. Tobba Marinós/mbl.is

Þessa uppskrift hrærði ég saman í hálfkæringi en úr urðu mjög góðir klattar sem henta hvort sem er í morgun-, hádegis- eða kvöldverð. Ég reyni gjarnan að elda ríflega og frysta svo ég eigi eitthvað hollt að grípa í þegar lítill tími gefst. Þessir blómkálsklattar eru því fullkomnir í slíkt en svo eru þeir meinhollir en möndlumjöl er afar prótínrík sem og eggin. Það er svo hægt að setja vorlauk, skarlottlauk, smátt saxað ferskt krydd eða hvað sem er út í deigið til að fá nýja útgáfu. Gætið þess þó að saxa allt mjög smátt svo klattarnir loði ekki illa saman. 

800 g blómkál, soðið
1,5 - 2 bollar möndlumjöl
1 bolli parmesan, rifinn
3 egg
Sjávarsalt
Pipar
Chillíflögur í kvörn (má sleppa) eða annað krydd eftir smekk
Kókosolía að steikja upp úr.

Sigtið vatnið vel frá blómkálinu. Gott er að kreista blómkálið jafnvel í viskastykki til að losna við vatnið. 
Stappið blómkálið með kartöflustöppu.
Hrærið öllum innihaldsefnunum saman við.
Það er best að krydda deigið duglega því það er ekki bragðmikið.
Deigið á að loða vel saman líkt og fisk- eða kjötfars. Ef deigið er of blautt skaltu bæta við meira mjöli.

Aðferð
Hitið olíu á pönnu við nokkuð miðlungs hita.
Mótið kúlu úr deiginu og setjið á pönnuna og þrýstið með spaða ofan á svo úr verður klatti.
Steikið í nokkrar mínútur á hvorri hlið uns klattinn er vel gylltur.
Það er betra að steikja klattana aðeins lengur en skemur. Mér finnst best ef þeir eru stökkir að utan.

Tobba Marinós/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert