Skipulagið í frystinum tekið á næsta stig

Eins og sjá má er um tímamótaskipulag að ræða sem ...
Eins og sjá má er um tímamótaskipulag að ræða sem flestir ættu að ráða við. Skjáskot úr myndbandi Good Housekeeping

Frétt okkar um deiliskipulag í frystihólfum sló rækilega í gegn þannig að við lögðumst í frekari rannsóknarvinnu og komumst að því að skipulagssérfræðingar Good Housekeeping slá meðalgreindum atvinnuverkfræðingum ref fyrir rass svo um munar.

Útfærslan í myndbandinu hér að neðan fær áráttuhegðunar-hjartað til að slá hraðar og við getum öll sammælst um að líf með svona skipulögðum frysti hlýtur að vera umtalsvert einfaldara.

Aðferðin er einföld:

1. Flokkaðu matinn. Notaðu frystipoka og lofttæmdu þá vel. Gott er að láta innihaldið fyrst frjósa á hlið þannig að þægilegra verði að stafla honum. Gott er að nota skjalamöppu úr plasti (sjá myndbandið hér að neðan) og lykilatriðið er að merkja umbúðir vel – bæði með innihaldi og dagsetningu.

2. Notaðu box og kassa. Þannig staflast hlutirnir betur upp og eru aðgengilegri.

3. Notið dalla fyrir mat sem er óreglulegur í laginu. Merkið ílátin vel. Í myndbandinu má sjá hvernig búið er að pakka kjúklingi og laxi í rétta skammta sem eru síðan geymdir í merktum hólfum. Þetta er sérstaklega hentug lausn þegar keyptur er stór skammtur sem er notaður í margar máltíðir. Þannig geta Ikea-kjötbollurnar farið í margar minni einingar sem hægt er að kippa úr úr frystinum um morguninn og elda um kvöldið.

4. Undirbúðu máltíðina áður en hún fer í frost. Sniðugt er að setja kjöt eða fisk í kryddlegi inn í frysti. Þannig er máltíðin orðin krydduð og fín þegar komið er að eldamennskunni sem sparar tíma og einfaldar lífið.

mbl.is