Ljúffeng linsubaunasúpa úr afgangsgrænmeti

Linsubaunir eru æðislegt hráefni. Það er hægt að nýta þær …
Linsubaunir eru æðislegt hráefni. Það er hægt að nýta þær í allskonar gómsæta rétti og þær eru stútfullar af næringu. veganistur.is

Systurnar Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur eru reglulegir gestir á síðum Matarvefsins enda annálaðir sælkerar og grænkerar. Hér er komin dásamleg leið til að nýta afgangsgrænmeti í ljúffenga súpu að hætti þeirra systra.

„Linsubaunir eru æðislegt hráefni. Það er hægt að nýta þær í allskonar gómsæta rétti og þær eru stútfullar af næringu. Þegar ég gerðist vegan var linsubaunasúpa eitt af því fyrsta sem ég lærði að elda. Súpan var þó langt frá því að vera jafn góð hjá mér og hún er í dag, enda eru rúmlega fimm ár síðan og ég hef prufað allskonar útgáfur sem hafa heppnast misvel. Ég get sagt að nú sé ég komin með súpu sem ég er virkilega ánægð með og myndi stolt bjóða upp á til dæmis í matarboðum,“ segir Helga María sem segir súpuna einnig góða gegn matarsóun.

„Það er mismunandi hvaða grænmeti ég hef í súpunni og það fer yfirleitt eftir því hvað ég á til. Ég myndi segja að linsubaunasúpa sé einmitt tilvalinn matur til að útbúa þegar maður á fullt af grænmeti í ísskápnum sem er hálfklárað og jafnvel orðið lúið. Það er rosalega gott að setja í súpuna t.d sellerí, papriku, gulrætur, sætar kartöflur eða rifið hvítkál. Ég ákvað þó að hafa þetta súper einfalt í dag og notaði tvær tegundir af lauk og spínat.“

Einn stærsti kosturinn við súpugerð er hversu lítið þarf að hafa fyrir eldamennskunni. Það er að sjálfsögðu mismunandi eftir uppskriftum en þær súpur sem ég geri eru yfirleitt virkilega þægilegar og einfaldar. Mér þykir bara eitthvað svo heillandi að geta skellt hráefni í pott og leyft því að malla án þess að þurfa mikið að skipta mér af.“

Það er tilvalið að nýta slappt grænmeti í þessa súpu.
Það er tilvalið að nýta slappt grænmeti í þessa súpu. veganistur.is

Hráefni:

1 bolli saxaður laukur
1 bolli niðurskorinn blaðlaukur
2-3 pressaðir hvítlauksgeirar – ég notaði 2 stóra
Olía til steikingar
2 tsk. túrmerik
1 tsk. cumin
1 tsk. garam masala
1 bolli ósoðnar rauðar linsubaunir
1 dós kókosmjólk
1 dós niðursoðnir tómatar
4 bollar vatn
1 grænmetisteningur
Safi úr ½ límónu
150 g spínat
Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

1. Byrjið á því að steikja laukinn, blaðlaukinn og hvítlaukinn upp úr olíu í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýkst aðeins.

2. Bætið túrmerik, cumin og garam masala út í, hrærið saman við laukinn í sirka mínútu.

3. Setjið restina af hráefnunum (fyrir utan spínatið og lime-safann) út í pottinn og leyfið súpunni að malla í sirka 20 mínútur á miðlungshita.

4. Slökkvið á hellunni og bætið spínati, lime-safa, salti og pipar út í. Hrærið aðeins og leyfið spínatinu að mýkjast.

5. Berið súpuna fram eina og sér eða með því sem ykkur lystir. Mér finnst súpan passa mjög vel með góðu súrdeigsbrauði.

veganistur.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert