Heimagert pasta er minna mál en þig grunar

Ólína S. Þorvaldsdóttir eða Lólý eins og hún er alltaf …
Ólína S. Þorvaldsdóttir eða Lólý eins og hún er alltaf kölluð er fagurkeri og sannkallaður listakokkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólína S. Þorvaldsdóttir eða Lólý eins og hún er alltaf kölluð heldur úti matarblogginu loly.is. Hún er mikill meistari í eldhúsinu og deilir hér með okkur uppskrift að heimagerðu pasta. Pastað sjálft inniheldur aðeins tvö innihaldsefni en svo má vel leika sér með fyllingar og sósu.

„Hér er uppskrift að einföldu heimagerðu pasta og svo af ravioli sem mér finnst alveg óendanlega gott. Þið getið svo ráðið hvernig þið viljið hafa pastað ykkar. Það er t.d. ekkert mál að gera tagliatelle og geyma svo hluta af því með því að þurrka það og nota síðar. En í þessu tilfelli notaði ég pastað strax og það er sko alveg ljóst að það jafnast ekkert á við heimagert pasta enda ekki skrítið því að allt sem maður gerir heima í höndunum er yfirleitt gert með mikilli ást og allur matur bragðast betur svoleiðis.“

Lolý segir pastagerð ekki þurfa að vera flókna.
Lolý segir pastagerð ekki þurfa að vera flókna. loly.is/Ólína Þ.

Það sem þarf til pastagerðar:

600 g hveiti
6 egg

1. Setjið hveitið í skál og gerið gat í miðjuna á því. Brjótið eggin í miðjuna á hveitinu og hrærið eggjunum saman með gaffli.

2. Þegar þið eruð búin að blanda eggjunum saman þá er málið að setja puttana í þetta og hræra saman hægt og rólega, takið alltaf smá af hveitinu og blandið við eggin þangað til þetta er allt vel blandað saman.

3. Nú er bara að hnoða deigið saman sem krefst svolítillar vinnu og mikillar ástar og þá fáið þið glansandi fallegan deigbolta.

4. Það er líka hægt að setja hveitið og eggin í matvinnsluvél og blanda því saman þangað til það verður eins og brauðmylsna og hella því svo á borðið og hnoða vel saman, það skiptir miklu mál að hnoða vel saman til að fá glútenið af stað í deiginu og þegar það gerist fær maður mjúkt og gott pasta sem verður al dente við suðu en ekki lint.

Ykkur er alveg óhætt að beita svolítilli hörku þegar þið eruð að hnoða – deigið þolir það vel.

5. Svo er bara að rúlla deiginu saman í eina kúlu, vefja hana inn í filmu og kæla í smástund í ísskápnum svo það sé auðveldara að rúlla það þunnt út. Þegar þið rúllið því út getið þið annaðhvort gert það með kökukefli eða pastavél, en aðalatriðið er að rúlla bara lítinn hluta af deiginu í einu frekar en marga stóra hluta. Það er svo miklu auðveldara að gera lítið í einu til að fá það eins þunnt og mögulegt er.

Það þarf bara að passa upp á að um leið og búið er að rúlla það út þá verður maður að skera það strax í það form sem maður vill hafa það.

Þegar ég geri ravioli þá passa ég upp á að á meðan pastað er í ísskápnum þá geri ég fyllinguna þannig að hún sé tilbúin þegar ég fer að rúlla það út og þannig get ég sett fyllinguna strax á, rúlla út tvær lengjur af pasta og set fyllinguna ofan á aðra þeirra með svona eins og nokkurra sentimetra millibili, pensla endana með eggi og legg svo hina lengjuna yfir og sker í það form sem ég vil hafa á pastanu.

Fylling:

300 g soðið spínat
600 g ricotta-ostur
smá múskat (nutmeg)
salt og pipar eftir smekk
1 eggjarauða
2 msk. rifinn parmesan-ostur

Skerið spínatið þegar búið er að sjóða það og passið upp á að kreista allt vatn úr því. Blandið síðan öllu saman í skál þangað til blandan er mjúk og góð, en smakkið til svo að þetta verði kryddað að ykkar smekk.

Svo er bara að sjóða pastað í vatni með einum kjúklingateningi en þegar suðan er komin upp þá smellið þið pastanu í pottinn og passið að það þarf bara svona eins og þrjár mínútur í suðu.

Þegar ég geri svona pasta þá finnst mér best að hita smjör í potti með annaðhvort ferskri basiliku eða salvíu og þá læt ég smjörið aðeins verða brúnt og eins er gott að skella svona eins og einu pressuðu hvítlauksrifi út í.

Hellið smá smjöri yfir hvern skammt af pasta og dreifið parmesan yfir og njótið svo vel elskurnar – þetta er bara best í heimi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert