3 stórkostlegar páskatertur

Albert Eiríksson og páskaterta.
Albert Eiríksson og páskaterta. Kristinn Magnússon

Albert Eiríksson á alberteldar.com töfrar fram nýja páskatertu á hverju ári. Hann segir fólk eiga að njóta á páskadegi og alls ekki telja kaloríur þann daginn! Albert deilir með lesendum þremur nýjustu páskatertunum.  

Albert er nú þegar búinn að baka páskatertuna 2017 og er sérlega ánægður með útkomuna. Á hverju ári bakar hann tertu sem á að njóta á páskum og er tertubaksturinn orðinn að páskahefð. Hann segist vera óhræddur við að prófa eitthvað nýtt og eru því kökurnar afar ólíkar, ár frá ári. Eina sem þær eiga sameiginlegt er að þær eru allar geggjaðar!

„Það byrjaði þannig að Bergþór, eiginmaðurinn minn, var að syngja af og til í páskadagsmessunum í Dómkirkjunni og það er hefð hjá þeim að hafa páskamorgunverð milli messa. Þá koma kórmeðlimir með kaffimeðlæti og við erum að tala um kaloríukjarnorkusprengjur! Þetta var svo hrikalega flott og gaman að upplifa það á páskadagsmorgni, þessar svakalegu tertur. Þarna mátti maður bara gleyma sér og njóta, einu sinni á ári, og gleyma því alveg að kaloríur hafi verið fundnar upp,“ segir Albert. „Það kveikti í okkur og síðan þá höfum við alltaf bakað okkar tertu og höfum þá kaffisamsæti Dómkórsins í huga. Þetta eru alltaf miklar tertur, hálfgerðar stríðstertur.“

Betrumbætti hugmyndina

Albert hefur bakað páskatertu á hverju ári í fimm ár. Tertan í ár er því sú sjötta í röðinni og ekki af verri endanum. „Kakan í ár er svo að segja hveitilaus og afskaplega ljúffeng. Þetta er pistasíukaka með appelsínuberki og granateplafræjum,“ útskýrir Albert. „Ég fékk hugmyndina á netinu og betrumbætti hana eins og maður gerir. Ég bakaði hana í gær og hún var alveg hrikalega góð! Og eiginlega er hún betri daginn eftir,“ segir Albert. „Svo bara hefur maður þeyttan rjóma með og góðan kaffisopa.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Pistasíu- og granateplaterta 2017 

225 g mjúkt smjör
200 g sykur
4 egg
börkur af 2 appelsínum
½ bolli hveiti
1 tsk. lyftiduft
½ tsk. salt
1½ b pistasíur, malaðar fínt í matvinnsluvél.

Þeytið vel saman smjör og sykur, bætið við einu og einu eggi og þeytið áfram. Bætið við hveiti, lyftidufti, salti og pistasíum. Bakið við 160°C í um 50 mín.

Ofan á
1 sítróna
60 g pistasíur
70 g sykur
smá salt
fræ úr einu granatepli

Rífið sítrónubörk gróft og kreistið safann. Skerið pistasíur í helminga. Setjið sykur og sítrónusafa í pott og sjóðið þangað til það er orðið að sírópi. Bætið berkinum við og loks pistasíunum og hellið yfir kökuna svona tíu mínútum eftir að hún kemur úr ofninum. Stráið að lokum granateplafræjunum yfir.

mbl.is/.alberteldar.com

Apríkósuterta – 2016 

4 egg
1 dl sykur
1 tsk. salt
250 g mascarpone
3½ dl hveiti
2/3 tsk. kanill
2 tsk. lyftiduft
½ tsk. vanilla
3 msk. matarolía
1 heil dós apríkósur
1 dl safi af apríkósunum
2 msk. Grand Marnier

Hrærið vel saman eggjum og sykri. Bætið við mascarpone, salti, hveiti, kanil, vanillu og olíu. Skerið apríkósurnar í grófa bita og blandið saman við með sleif. Bakið í tertuformi við 175°C í um 44 mín. Blandið saman apríkósusafa og Grandi og hellið yfir tertuna á meðan hún er enn heit.

mbl.is/alberteldar.com

Svakaleg súkkulaðiterta

Svampbotn
50 g kakó
200 g hveiti
325 g sykur
1 tsk. lyftiduft
90 ml matarolía
6 eggjarauður
6 eggjahvítur
½ tsk. borðedik
nammi til að skreyta með 

Pralín
75 g flórsykur
150 g steiktar heslihnetur
1 msk. matarolía 

Kornflex-lag
150 g 70% súkkulaði
45 g kornflex 

Vanillusmjörkrem
4 hvítur
240 g sykur
2 g vanilla extrakt
225 g smjör, mjúkt
100 g súkkulaði 

Súkkulaðibráð
75 g 70% súkkulaði
50 g smjör
1 msk. hunang 

Stillið ofninn á 160°C.

Setjið kakó í 200 ml sjóðandi vatn og kælið. Blandið saman í aðra skál hveiti, sykri, lyftidufti og svolitlu salti.  Hrærið saman olíu og eggjarauður. Blandið öllu saman, hveitiblöndu, rauðum og kakóblöndu.

Þeytið eggjahvítur með ediki og blandið varlega við deigið. Smyrjið 10 cm hátt 23 cm form (setjið tvöfalt lag af bökunarpappír á barmana til að hækka það) og hellið deiginu í. Bakið í 35-40 mín. Þegar kakan er bökuð, setjið hana á hvolf á grind.

Pralín: Bræðið flórsykur við meðalhita í 1-2 mín. Hrærið saxaðar heslihnetur hratt saman við, setjið á bökunarpappír og salt yfir milli fingra. Kælið og setjið í matvinnsluvél í stutta stund, takið helminginn af og setjið í skál. Setjið olíuna í vélina og þeytið þar til það er orðið að smjöri.

Kornflex-lag: Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og blandið 2/3 af pralínsmjörinu saman við og síðan kornflexi.

Vanillusmjörkrem: Setjið hvítur og sykur í glerskál yfir vatnsbað og þeytið þar til sykurinn er bráðinn og hvíturnar stífar. Takið af hitanum, blandið vanillu út í og látið kólna niður í herbergishita. Þeytið mjúkt smjörið út í smám saman. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og kælið í 6 mín.  Blandið varlega saman við smjörkremið.

Skerið kökuna í þrjú lög. Breiðið helminginn af kornflexblöndunni á neðsta lagið og 1/4 af smjörkreminu ofan á það. Endurtakið á næsta lag og þegar efsta kökulagið er komið ofan á, smyrjið afgangi af smjörkreminu ofan á og á hliðar (lítið í einu og leyfið að setjast á milli) og setjið í kæli í hálftíma.

Súkkulaðibráð: Bræðið súkkulaði, smjör og hunang yfir vatnsbaði. Hrærið afgang af pralíninu og kælið í herbergishita, en látið ekki setjast. Hellið yfir og skreytið með Ferrero Rocher. Skreytið með hnetunum sem eftir urðu þegar pralínið var búið til, í kring neðst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert