Hollt og hátíðlegt

Í fyrra gerði ég í fyrsta sinn líka páskaegg fyrir …
Í fyrra gerði ég í fyrsta sinn líka páskaegg fyrir son minn, Jökul Mána,og fannst sniðugt að útbúa handa honum málmegg sem þyldi betur hnjask, enþað fylgir gjarnan tveggja ára stuðboltum,“ segir Edda Andrésdóttir. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Edda Andrésdóttir, nemi í næringarfræði við HÍ, tekur margnota egg úr málmi fram yfir hefðbundin súkkulaðiegg. Hún útbýr tvö páskaegg – eitt fyrir sig og annað fyrir soninn – og fyllir þau með orkuríku og heilsusamlegu góðgæti á borð við döðlur, þurrkað mangó, rúsínur og goji-ber, ásamt nokkrum molum af gæðasúkkulaði.

Ég bjó í Danmörku í sex ár þar sem ég kynntist þessari „skrítnu“ hefð að vera með margnota páskaegg úr pappa,“ segir Edda Andrésdóttir, matgæðingur og nemi í næringarfræði við Háskóla Íslands. „Ég verð að viðurkenna að ég kem úr fjölskyldu þar sem súkkulaðigenið er ríkjandi og í fyrstu þótti mér beinlínis asnalegt að sleppa skelinni, það þýddi einfaldlega minna súkkulaði. Sannleikurinn var nú samt sá að mér fannst þessi hefðbundna súkkulaðiskel aldrei góð á bragðið og innihaldið líka frekar óspennandi, að undanskildum málshættinum.

Þess vegna tók ég upp þennan sið, að fylla pappaeggið mitt með því sem mér þótti best; dökkum súkkulaðibitum, nokkrum bitum með heslihnetufyllingu og þurrkuðum ávöxtum. Með árunum hefur eggið þó minnkað, ég byrjaði með stórt pappaegg en í fyrra skipti ég því svo út fyrir lítið egg úr málmi sem ég keypti í Tiger. Þá gerði ég í fyrsta sinn líka páskaegg fyrir son minn, Jökul Mána, og fannst sniðugt að útbúa handa honum málmegg sem þyldi betur hnjask, en það fylgir gjarnan tveggja ára stuðboltum.“

Þurrkuð mórber

Hvað með innihaldið, hvað fer í þitt páskaegg og hvað fær sonurinn?

„Innihaldið hefur einnig breyst í gegnum tíðina, súkkulaðið er orðið dekkra og minna um þurrkaða ávexti. Í eggið mitt í ár fara þurrkuð mórber, dökkt súkkulaði með kókos, heslihnetufyllt konfekt, lakkríssúkkulaði frá Omnom og nokkrar döðlur.

Jökull Máni fær í sitt egg þurrkað mangó, goji-ber, döðlur, rúsínur, þurrkuð trönuber og ávaxtanammi og í ár fá nokkrir vel valdir súkkulaðibitar að fylgja með, þó líklegast ljósari en mínir.“

Eru súkkulaðipáskaeggin alveg út úr myndinni, færðu þér ekki einu sinni einn bita?

„Ég er alveg hætt í hinum hefðbundnu páskaeggjum. Síðustu ár hafa foreldrar mínir hins vegar keypt eitt sælkeraegg frá Hafliða í Mosfellsbakaríi, dökkt eðalsúkkulaði, handa okkur fjölskyldunni og mér finnst stemning að fá mér smá bita og lesa málsháttinn.“

Breytt mataræði

Hefurðu alltaf verið meðvituð um mataræðið – borðað hollt?

„Frá því að ég var unglingur hef ég hugsað vel um heilsuna, hreyft mig reglulega og vandað valið á því sem ég læt ofan í mig. Hægt og rólega hafa áherslurnar breyst. Núna er ég minna í ræktinni en stunda þess í stað jóga nokkrum sinnum í viku og reyni að hugleiða við flest tækifæri. Gönguferðir og fjallgöngur finnst mér einnig dásamleg líkamsrækt.

Ég elska að vera í eldhúsinu, prófa nýja rétti og aðferðir og úr öllum áttum. Mataræði mitt er svolítið eins og ég sjálf, alls konar og alltaf að breytast. Ég flögra frá hráfæði yfir í grænmetisfæði, vegan-rétti, hægeldað, lágkolvetna og nota hráefni úr öllum fæðuflokkum. Ég útbý mitt eigið hrákonfekt og geymi í frysti, þá er auðvelt að ná sér í einn og einn mola. Skyndibitamatur heyrir sögunni til, nema þegar ég skýst einstaka sinnum á Gló eða fæ mér borgara á Búllunni, ég er jú ekki heilög.

Þessi ástríða mín fyrir mat og matargerð, sem og þörfin fyrir að hjálpa öðrum, leiddi mig út í næringarfræðinám. Mig langar í framtíðinni að geta aðstoðað þá sem eru villtir í hringiðu tímaleysis og skyndibitaneyslu og eru mögulega farnir að þjást af lífsstílssjúkdómum. Sýna þeim fram á að það er mun auðveldara en margir halda að lifa heilsusamlegu lífi og taka upplýstar, góðar ákvarðanir varðandi mataræðið.“

Páskaliljur í potti

Páskarnir þínir, snúast þeir um útivist og góðan mat?

„Þegar ég hugsa um páskana er það fyrsta sem kemur upp í hugann kærkomið frí, heilagar gæðastundir með fjölskyldunni og vinunum, og já, góður matur og matarboð. Á páskum gefst tími til að sinna áhugamálunum sem verða annars oft að sitja á hakanum, þar ber helst að nefna góða útiveru, göngutúra, gæðastundir með litla stráknum mínum, jóga – og matargerð.

Páskarnir í ár verða annars mjög afslappaðir. Ég er í háskólanámi svo ég mun nýta hverja mínútu sem gefst í góða slökun í faðmi fjölskyldu og vina. Jafnframt mun ég reyna að glugga aðeins í skólabækurnar. Ég þarf líka að vinna, ég vinn í fyrirtæki foreldra minna, Tónastöðinni, samhliða skólanum og þetta er mjög annasamur tími hjá okkur, hljóðfæri eru vinsælar fermingargjafir. Ein besta vinkona mín á svo stórafmæli um páskana og ég vona að hún leyfi mér að aðstoða hana við undirbúning veislunnar.“

Áttu þínar páskahefðir?

„Eina fasta hefðin er líklega sú að við höfum páskalamb í matinn á páskadag og góðan eftirrétt. Áður en ég eignaðist strákinn minn, sérstaklega þegar ég bjó í Danmörku, reyndi ég yfirleitt að nýta páskafríið í að heimsækja vini mína í Evrópu, eða fjölskyldu mína á Íslandi. Stundum fór ég líka til systur minnar og fjölskyldu hennar í Bandaríkjum, svo ætli það sé ekki líka smá hefð fyrir ferðalögum.

Mér finnst minna vera meira þegar kemur að skreytingum fyrir hátíðir og það á líka við um páskana; gulir túlípanar, páskaliljur í potti, örfá skrautegg og gulur dúkur á eldhúsborðið hefur mér fundist vera nóg.“

Snickers-bitarnir sem kenndir eru við Sollu á veitingastaðnum Gló sanna …
Snickers-bitarnir sem kenndir eru við Sollu á veitingastaðnum Gló sanna að hrákonfekt get-ur verið alveg jafn syndsamlega ljúffengt og sælgæti sem fullt er af hvítum sykri og annarri óhollustu. Ég kynntist þessari hefðþegar ég bjó íDanmörku. mbl.is/Kristinn Magnúsosn
Snickers-bitar Sollu í Gló – með minni aðferð

Botn
150 g döðlur
125 g pekanhnetur
salt á hnífsoddiFylling
1 dós gróft möndlusmjör/hnetusmjör

Milli fyllinga
jarðhnetur, 1 lúka

Fylling 2
2 dl döðlumauk
1 tsk. vanilla
1 msk. möndlusmjör
salt á hnífsoddi
örlítið vatn

Súkkulaði1 dl kakóduft
½ dl kókosolía
½ dl kakósmjör
½ dl hlynsíróp
Aðferð:Döðlur, pekanhnetur og smá salt er sett í matvinnsluvél og maukað þar til það er orðið klístrað.Setjið maukið á smjörpappír, í ferkantað form (25x35), þrýstið því jafn niður í formið og frystið í sirka 30 mín.

Takið formið úr frysti og hellið yfir fyllingu 1, dós af möndlusmjöri, dreifið jafnt úr því og látið stífna í frysti.Á meðan er hægt að blanda fyllingu 2 í matvinnsluvél; döðlumauk, vanilla, möndlusmjör, örlítið salt og smá vatn ef þarf.

Þessi fylling á að verða að mjúkri, seigfljótandi karamellu.Takið formið aftur úr frysti og dreifið sirka einni lúku eða meira af jarðhnetum yfir botninn, hellið svo fyllingu 2 yfir, dreifið jafnt úr henni og skellið aftur í frysti og látið stífna.

Síðasta skrefið er að bræða kókosolíuna og kakósmjörið í skál yfir heitu vatni í potti. Hræra kakóduftinu vandlega saman við og smakka til með hlynsírópi, eða sleppa því.Takið formið svo úr frysti, hellið súkkulaðinu yfir og látið stífna áður en þið skerið þetta í litla gómsæta bita, sem frábært er að laumast í þegar sætindaþörfin gerir vart við sig. 
Edda Andrésdóttir, nemi í næringarfræði og matgæðingur fyllir Tvö margnota …
Edda Andrésdóttir, nemi í næringarfræði og matgæðingur fyllir Tvö margnota páskaegg með alls kyns hollu gúmmelaði og gerir hrákonfekt. mbl.is/Kristinn Magnúsosn
Kyssu-berja-súkkulaðistangir
Sonur minn gaf konfektinu þetta flotta nafn.

Hjúpur
100 g kakósmjör
6 msk. hrátt kakóduft
1 msk. kókosolía
klípa af sætu, t.d. hlynsírópi/hunangi/agave
örlítið salt

Fylling
10 kirsuber
6 jarðarber
1/3 bolli kókosmjöl
1 msk. kókosolía
vanilla á hnífsoddi
smá sæta, t.d. hlynsíróp/hunang/agave

Aðferð:

Þíðið berin ef þau eru frosin og setjið allt hráefnið fyrir fyllinguna í matvinnsluvél. Mér finnst gott að hafa blönduna sem grófasta.Klæðið ferhyrnt form að innan með smjörpappír, dreifið úr fyllingunni og frystið í 1-2 klst.

Á meðan: Bræðið kakósmjör og kókosolíu í skál yfir heitu vatni í potti. Þegar það er bráðið bætið þið hrákakóinu út í og blandið vel. Ef þið ákveðið að nota sætu er gott að smakka til með henni.

Mér finnst gott að nota örlítið sjávarsalt.Takið svo fyllinguna úr frysti, skerið í lengjur sem þið dýfið svo út í súkkulaðihjúpinn og stingið aftur í frystinn. Til að fá þykkan hjúp er gott að taka nokkrar umferðir, dýfa í súkkulaði og frysta á víxl.
mbl.is/Kristinn Magnúsosn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert