Brjálæðislega girnilegur páskabröns Evu Laufeyjar

Eva Laufey hóar fólkinu sínu gjarnan saman í bröns.
Eva Laufey hóar fólkinu sínu gjarnan saman í bröns.

Páskabröns er fullkomin leið til að hóa saman vinum og ættingjum og njóta góðra veitinga,“ segir Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, matarbloggari og dagskrárgerðarkona á Stöð 2. „Það hentar mér sérstaklega vel að fá fólk heim snemma, borða ljúffengan mat og fara svo södd út í daginn, ég tala nú ekki um ef ég næ að leggja mig eftir matinn með dóttur minni, henni Ingibjörgu Rósu, á svona frídögum.

Ég er dugleg að bjóða fólkinu mínu heim í bröns, á öllum tímum ársins, enda hægt að leika sér svo mikið með réttina sem eru á boðstólum. Það þarf alls ekki að vera flókið að setja saman brönsmatseðil og það er tilvalið að skipta réttunum á milli sín, þannig að hver gestur komi með eitthvað gott á veisluborðið. Það er mjög sniðug leið til þess að minnka stressið og einnig er gaman að smakka nýja rétti frá öðrum, því maður á það nú til að útbúa það sama aftur og aftur.“

Leit að eggjum

Páskarnir – eru þeir alltaf tilhlökkunarefni?

„Páskarnir eru dásamlegur tími, þeir bjóða upp á gott frí fyrir alla fjölskylduna og almenn rólegheit með fólkinu mínu. Páskarnir eru í mínum huga eitt besta fjölskyldufríið okkar, það er einhver ró sem fylgir páskunum og auðvitað mikil súkkulaðigleði.“

Áttu góðar æskuminningar frá páskum?

„Við skreyttum alltaf heimilið fyrir páskana og mér fannst sérstaklega gaman að taka þátt í því ævintýri. Sjálf á ég ekki eitt einasta páskaskraut, en mamma átti og á enn gott safn af ungum og eggjaskurn. Aðalfjörið var auðvitað leitin að páskaeggjunum á páskadagsmorgun, þá ríkti mikil eftirvænting og spenna hjá okkur systkinunum og það gekk alltaf mikið á. Páskaeggjaleitin stendur klárlega upp úr sem afar góð æskuminning.“

Í eldhúsi Evu

Þínar páskavenjur, heldurðu í hefðir?

„Ég hef yfirleitt boðið fjölskyldunni minni í bröns um páskana. Móðir mín er annars svo dugleg að fá okkur í mat að ég fæ sjaldan tækifæri til að elda páskamatinn; hún er oftast búin að hóa í okkur með góðum fyrirvara, það er veisla á hverjum degi hjá henni. Við litla fjölskyldan höfum haft það mjög rólegt yfir páskana og notið þess að vera saman í fríi, ætli það séu ekki mínar páskavenjur. Að þessu sinni ætlum við að eyða nokkrum dögum í sumarbústað, annars verðum við heima og slökum á í páskafríinu. Við ætlum að borða mikið af góðum mat, hitta fólkið okkar – og já, borða nóg af súkkulaði.

Það verður gott að slappa af, eftir mikla vinnutörn síðustu vikur. Ég er þessa dagana að taka upp nýja þætti, Í eldhúsi Evu, sem fara í loftið á Stöð 2 síðar í þessum mánuði. Þar býð ég áhorfendum í fyrsta sinn heim til mín upp á Skaga, við höfum aldrei áður tekið upp matreiðsluþætti á mínu heimili svo það verður sérstaklega ánægjulegt. Í þáttunum verður lögð áhersla á einfaldan, fljótlegan og auðvitað bragðgóðan mat. Auk þess að elda sjálf heima fæ ég að vera starfsmaður í þjálfun á frábærum veitingastöðum og bakaríum í höfuðborginni, og gefst þannig gott tækifæri til að læra ennþá meira um mat.“

mbl.is/EvaLaufey

Amerískar pönnukökur með jarðarberjum og súkkulaði

1 egg
5 dl hveiti
3 tsk. lyftiduft
½ tsk. salt
1 tsk. vanillusykur
3 msk. smjör (brætt)
2½ dl mjólk
2 dl ab-mjólk eða súrmjólk
Sigtið saman hveiti, lyftiduft og salt í skál. Blandið vel saman og bætið vanillu út í.
Bræðið smjörið, leggið til hliðar og kælið

Pískið eggið og blandið mjólkinni saman við.

Hellið eggjablöndunni saman við hveitiblönduna, bætið smjörinu og ab-mjólkinni út í og hrærið

vel í með sleif. Ég leyfi deiginu að standa í 30-60 mínútur áður en ég steiki pönnukökurnar.

Hitið smávegis af smjöri á pönnu og steikið pönnukökurnar, þær eru tilbúnar þegar þær eru gullinbrúnar á báðum hliðum. Þið ráðið því auðvitað hvort þið gerið stórar, eða litlar eins og ég var með í þessu páskaboði.

Ég bræddi smávegis af súkkulaði yfir vatnsbaði, skar niður nokkur jarðarber og sáldraði smá flórsykri yfir í lokin.

mbl.is/EvaLaufey

Ómótstæðilegt franskt eggjabrauð, gott með ávöxtum og hlynsírópi.

4 stórar brauðsneiðar
4 egg
2 dl rjómi
2 msk. appelsínusafi
rifinn appelsínubörkur, u.þ.b. matskeið
½ tsk. kanill
1 tsk. vanilluextract eða -dropar
smá skvetta af hlynsírópi eða 1 tsk. sykur

Skerið brauðið niður í þykkar sneiðar. Pískið egg og rjóma léttilega saman. Bætið appelsínusafa, kanil, vanillu og sírópi út í og hrærið vel.

Hellið blöndunni yfir brauðsneiðarnar og snúið þeim einu sinni við. Leyfið brauðinu að liggja í eggjablöndunni í 2-3 mínútur. Hitið smjör á pönnu og steikið á hvorri hlið í nokkrar mínútur, eða þar til eggin eru elduð. Gætið þess að hafa ekki of háan hita á pönnunni. 

Berið brauðið fram með ávöxtum og hlynsírópi.

mbl.is/EvaLaufey

Morgunverðarpanna sælkerans 

Olífuolía
8 kartöflur
1 laukur
1 rauð paprika
5-6 sneiðar gott beikon
3-4 egg
kirsuberjatómatar
steinselja
basilíka
salt og nýmalaður pipar

Hitið olíu á pönnu. Skerið niður kartöflur, lauk, papriku og beikon. Steikið í nokkrar mínútur
eða þar til kartöflurnar eru gullinbrúnar og beikonið stökkt.

Kryddið til með salti og pipar. Brjótið 3-4 egg yfir og setjið pönnuna inn í ofn við 180°C í 6-8 mínútur eða þar til eggin eru fullelduð. Ef þið eigið ekki pönnu sem má fara inn í ofn þá færið þið blönduna yfir í eldfastmót. Setjið kirsuberjatómatana gjarnan með inn í ofn eða setjið þá yfir þegar eggin er klár.
Saxið niður ferskar kryddjurtir t.d. steinselju og basilíku og sáldrið yfir pönnuna í lokin. Berið strax fram

mbl.is/EvaLaufey

Belgískar vöfflur sem allir elska

Sirka 10 vöfflur (lítil uppskrift – auðvelt að tvöfalda eða þrefalda)
2 bollar hveiti (sirka 5 dl)
1 tsk. lyftiduft
2 egg
1 tsk. vanilla (extract eða sykur)
3 msk. sykur
1 bolli mjólk (2,5 dl)
1 bolli ab-mjólk (2,5 dl)
3 msk. ljós olía
smjör

Blandið þurrefnum saman í skál. Pískið tvö egg, hellið mjólkinni, olíunni og ab-mjólkinni saman við og blandið við þurrefnin.

Blandið öllu vel saman og hitið vöfflujárnið, smyrjið járnið með smjöri og bakið vöfflurnar þar til þær eru gullinbrúnar.

Berið vöfflurnar strax fram og þær eru gómsætar með súkkulaði og jarðarberjum. Það er líka ótrúlega gott að rista nokkrar pekan-hnetur og útbúa einfalda karamellusós

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert