Hið fullkomna helgarpasta

Ljósmynd/BevCooks.com

Þegar veðrið er ekki upp á marga fiska er fátt betra en að elda djúsí og dásamlegt pasta sem yljar manni um hjartaræturnar. Óttist eigi, það er alls ekki löðrandi í rjóma þótt það væri vissulega viðeigandi og inniheldur rósakál sem er nýjasta æðið í eldhúsum landsmanna. Endurkoma rósakálsins er sannarlega kærkomin enda er vel eldað rósakál algjört konfekt. Rósakálið naut mikilla vinsælda á níunda áratugnum og þá oft framreitt með dásemdum á borð við gulrótakrans.

En þessi pastaréttur er sérdeilis frábær. Hann inniheldur sem betur fer beikon enda nánast nauðsynlegt að neyta þess þegar veðrið er afleitt.

Ljósmynd/BevCooks.com

Hið fullkomna helgarpasta

  • 3 bollar af rósakáli, skornir í tvennt.
  • 1-2 msk. extra virgin ólífuolía
  • 400 g stórir pastahringir
  • 6 sneiðar af beikoni, skornar í 2 sm bita.
  • 1 msk. smjör
  • 1/4 bolli nýrifinn parmesan-ostur
  • 1/2 bolli panko-brauðmylsna, léttristuð
  • 1 sítróna, bæði börkur og safi
  • salt og pipar
  • söxuð fersk steinselja til skreytingar (og bragðbóta)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200 gráður.
  2. Setjið rósakálið á bökunarplötu, slettið smá olíu á það og kryddið með salti og pipar. Bakið í ofninum í 40 mín. eða svo. Fylgist þó vel með því og passið upp á að það sé að brúnast vel og fallega. Leggið til hliðar.
  3. „Renderið“ beikonið uns það er orðið örlítið stökkt, leggið þá til hliðar á eldhúspappír til að þerra burt afgangsfitu. Hellið beikonfitunni burt utan 2 tsk. sem þið skulið nota til að steikja rósakálið upp úr.
  4. Látið suðuna koma upp í stórum potti og saltið vatnið. Sjóðið pastað til samræmis við suðuleiðbeiningar á umbúðum þar til pastað er al dente eða örlítið hart undir tönn. Geymið um það bil 200 ml af suðuvatninu til að nota í soðið á eftir.
  5. Setjið pastað í pönnuna með rósakálinu og hristið vel saman. Bætið við smjörinu og velkið pönnunni þar til það er bráðið. Bætið við soðvatninu og sítrónusafanum og velkið vel til að búa til sósu.
  6. Slökkvið undir pönnunni og bætið við ostinum og blandið vel saman. Kryddið með salti og pipar.
  7. Skreytið með rifnum sítrónuberki, ristaða pankoinu og beikonbitunum. Og rífið meiri ost yfir. Og svo auðvitað steinseljuna. Og njótið vel...

p.s. að „rendera“ beikon er fremur einfalt. Steikið beikonið á lágum hita til að bræða fituna. Þegar fitan er bráðnuð skal taka bitana og þerra þá og hella fitunni af. Trixið er að hafa pönnuna á lágum hita og lækka hann enn meira ef smellir byrja að heyrast.

Ljósmynd/BevCooks.com
Ljósmynd/BevCooks.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert