Nautasteikin sem er að trylla karlpeninginn

Ljósmynd/Men´s Health

Nú þegar nautakjöt fæst langtum ódýrara hér á landi er ekki úr vegi að birta þá algirnilegustu steikaruppskrift sem sögur fara af. Uppskrift þessi leit fyrst dagsins ljós fyrir rúmum mánuði og hefur síðan þá verið gríðarlega vinsæl á vefsíðum helguðum karlmönnum og áhugamálum þeirra. Þar virðist grillmenning vera afskaplega vinsæl og greinilegt er að enginn er maður með mönnum á þeim slóðum nema að kunna að grilla góða steik.

Þar sem við elskum líka að grilla og borða góðar steikur þá er ekki úr vegi að birta þetta þar sem það viðrar alveg hreint ágætlega til útieldamennsku.

Við mælum svo að sjálfsögðu með því að þið skellið í alvöru bernaise í blandara sem tekur bara tvær mínútur eða svo og setur óneitanlega tóninn fyrir góða kvöldstund.

p.s. þessi frétt er ekkert grín. Uppskriftin er í alvöru svona einföld... og hún er að gera allt vitlaust.

Ljósmynd/Men´s Health

Nautasteikin sem er að trylla karlpeninginn

  • Eins margar myndarlegar steikur og þig langar að grilla. Þú ræður hvaða vöðva þú tekur en á myndinni er verið að grilla rib-eye nautasteik.

Aðferð

  1. Kveiktu upp í grillinu. Ef þú ert með kolagrill er nauðsynlegt að kveikja vel upp í kolunum og ef það er gas þá kveikja og hafa lokið á meðan grillið hitnar vel (við væntum þess að þið kunnið þetta).
  2. Kryddið steikurnar með salti og pipar og skellið á grillið þegar það er orðið vel heitt. Ekki er úr vegi að pensla grindina á grillinu til að tryggja að kjötið festist ekki við.
  3. Grillið eins og þarf og snúið reglulega. Passið bara að grilla kjötið alls ekki of mikið og leyfið kjötinu að hvíla þegar þið takið það af. Það er algjört lykilatriði að bíða með að skera kjötið uns það hefur fengið að „jafna“ sig ögn þannig að allur safinn leki ekki úr því.
  4. Flókið er það ekki en við fullyrðum engu að síður að það er mun flóknara að grilla en margur heldur þannig að fylgist vel með kjötinu og munið að betur er of lítið elduð steik heldur en of mikið!

Nokkur skotheld ráð:

  • Heittrúaðir grillarar eru mikið á móti notkun gasgrilla. Að þeirra sögn eru kol það eina sem vit er í.
  • Viðarspænir gerir mikið fyrir bragðið. Best er að nota spæni úr ávaxtatrjám. Gott er að leggja hann í bleyti deginum áður því þá kemur meiri reykur sem skilar sér í betra og meira bragði.
  • Snjallt er að pakka spæninum í álpappír og setja á kolin. Þá kemur meiri reykur. Passið ykkur bara að hafa reykgat.
  • Hafið öll áhöld hrein. Það vill oft gleymast að þrífa grillið eftir notkun. Best er að leyfa matarafgöngum á grindinni að brenna vel og bursta þær svo hressilega af með góðum vírbursta. Sama gildir um áhöld. Hreinlæti skiptir miklu máli.
  • Gott er að bleyta vel í eldhúspappír eða viskustykki með matarolíu og smyrja grillgrindina þannig. Þá festist maturinn síður við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert