Avókadómúffur með espressó

Ljósmynd/Pop Sugar
Flestir elska bollakökur og ansi margir elska avókadó. Það virðist hafa verið áhugamál hjá matarvefnum undanfarnar vikur að birta alls kyns avókadóuppskriftir og sumir hafa meira að segja gengið svo langt að segja að avókadóæði sé beinlínis að koma í veg fyrir að ungt fólk geti fjárfest í húsnæði.
Avókadóbollakökur eru hins vegar eitthvað sem við höfum ekki heyrt af áður. Við erum búin að grandskoða þessa uppskrift og hún kemur merkilega á óvart.
Avókadómúffur með espressó
 • 180 gr. hveiti
 • 2 msk. kakó
 • 1 tsk. lyftiduft
 • 1 tsk. matarsódi
 • 1/2 tsk. salt
 • 1 tsk. espressó-duft (skyndikaffi)
 • 240 ml vatn
 • 1/2 avókadó, miðlungsstórt
 • 2 1/2 dl sykur
 • 2 msk. púðursykur
 • 1 msk. hvítt edik
 • 1 tsk. vanilludropar
Kremið
 • 1/2 avókadó, miðlungsstórt
 • 2 msk. smjör, við stofuhita
 • 1 1/2 sítrónusafi
 • 5 dl flórsykur
Skraut
 • 1 avókadó, skrælt og skorið
 • Sjávarsalt
Aðferð
 1. Hitið ofninn í 180 gráður og gerið bollakökuformin klár.
 2. Blandið saman í stóra skál; hveiti, kakó, lyftidufti, matarsóda og salti.
 3. Blandið saman í litla skál; espressó-dufti og vatni. Hrærið til að leysa upp duftið. (Hér má líka bara hella upp á kaffi.)
 4. Í miðlungsstóra skál skal stappa avókadóið. Blandið saman sykri og púðursykri. Bætið því næst við ediki, vanilludropum, espresso og blandið saman þar til mjúkt.
 5. Blandið saman við hveitiblönduna og hrærið þar til það er orðið glettilega áferðarfagurt.
 6. Setjið í formin og bakið í 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp.
 7. Kremið: Notið hrærivél eða handblandara til að blanda saman avókadó og smjöri. Bætið síðan við sítrónusafanum. Að lokum skal blanda púðursykrinum saman við.
 8. Samsetning: Notið sprautupoka til að sprauta kreminu ofan á og skreytið með avókadósneið og smá sjávarsalti.
mbl.is