Brugga Stout-bjór með sviðakjömmum

Ljósmynd: Ölgerðin/Borg

Borg Brugghús heimsótti nýverið kollega sína hjá Voss Bryggeri í Hordaland í Noregi í þeim tilgangi að fremja norskt-íslenskt samstarfsbrugg.  Þar brutu brugghúsin í sameiningu blað í sögu bjórgerðar með því að nota meðal annars sviðakjamma í bjórinn sem er af gerðinni stout.
 
„Okkur hafði um tíma langað að brugga saman bjór og langaði ennfremur að ná einhverskonar menningarlegri tengingu milli þjóðanna í leiðinni.  Á einhverjum tímapunkti kom sú hugmynd upp að nota sviðakjamma í bjórinn þar sem neysla þeirra tíðkast í báðum löndum.  Við nánari umræður fór það svo að leggjast vel í okkur og við ákváðum að gera stout með íslenskum og norskum sviðakjömmum.  Stout-bjórar hafa gjarnan í sér eitthvað af umami (soya) bragði og ýmsa kjöttóna, þó svo að það sé kannski ekki að fyrsta sem fólk kveikir á við drykkju þeirra.  En það er hluti af ástæðunni fyrir því að þeir virka gjarnan vel til pörunnar með ýmsum kjötréttum og einnig í eldamennsku á þeim.  Hugmyndin er því kannski ekki alveg eins galin og hún kann að hljóma í fyrstu“, segir Árni Long, bruggmeistari Borgar.
 
„Við komum nokkrum íslenskum kjömmum út til Voss og notuðum einnig norska kjamma.  Það var dálítill munur á milli þeirra þar sem þeir norsku eru mun saltari en okkar og einnig reyktir.  Saman virkaði þetta vel og við suðum þá í bjórnum í stórum potti yfir eldi utandyra sem var mjög rómó og næs“, segir Árni.
 
Bjórinn er nú í gerjun hjá Voss í Noregi og verður á tönkum í nokkrar vikur í viðbót áður en honum verður tappað.  Stefnt er að því að ná litlu magni af þessu sérstaka bjór til landsins fyrir íslenska bjóráhugamenn að smakka.
 
Bruggmeistarar Borgar hafa verið á miklu ferðalagi undanfarin misseri og tekið þátt í fjölmörgum bjórhátíðum og viðburðum víðsvegar um Evrópu.
„Já, það hefur verið ansi mikið af ferðalögum undanfarið.  Við höfum verið á hátíðum í Kaupmannahöfn, Tallinn, Amsterdam, Bergen og Bodö allra síðustu vikur og meira að segja á hátíð um borð í Víking Line ferju.  Um næstu helgi er það svo Bier & Big hátíðin í Eindhoven og eitthvað fleira í framhaldi,“ segir Árni.

Ljósmynd: Ölgerðin/Borg
mbl.is