Algengustu mistökin sem fólk gerir í Costco

Mikil örtröð er við verslunina.
Mikil örtröð er við verslunina. mbl.is/Ófeigur

Tugir þúsunda Íslendinga hafa heimsótt verslun Costco frá því að hún opnaði 23. maí og er ekki annað hægt að segja en að móttökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum.

Mörgum þykir nóg um og hafa látið þá skoðun sína í ljós að þetta sé nú dæmigerð kauphegðun hjá Íslendingum sem megi ekki neitt nýtt sjá án þess að þurfa að kaupa það.

Sitt sýnist hverjum en það breytir ekki því að Costco er engin vejuleg verlsun og því tókum við saman lista yfir algengustu mistökin sem fólk gerir þar inni:

  1. Það mætir til að skoða. Costco er ekki verslun sem þú dundar þér í nema þú hafir endalausan frítíma og lítið annað að gera. Mjög algengt er að fólk komi þangað inn og labbi út með einn berjapakka eða svo. Erlendis tíðkast að mæta í Costco og viðlíka verslanir þegar gera þarf stórinnkaup og þá oft verslað fyrir mánuðinn. Hvort Íslendingar muni tileinka sér þá hegðun eða halda uppteknum hætti á eftir að koma í ljós.
  2. Kaupa of mikið. Það er lítill sparnaður fólginn í því að kaupa kíló af einhverju hræódýru sem síðan bara skemmist því það er enginn að fara að borða það. Margur hefur því óvart endað á að eyða meiru en hann hefði annars gert af hreinræktuðu hugsunarleysi.
  3. Costco er ekki skemmtigarður. Það eru kannski gíraffar og fílar þar en almennt er ekki gengið út frá því að Costco sé samkomustaður eða skemmtigarður. Þó virðast margir vera á öndverðri skoðun og fara þangað oft og reglulega – og hafa gaman af.
  4. Þú hleypur ekki inn. Í morgun var 120 metra röð fyrir utan verslunina þegar hún opnaði kl. 10. Það gefur því auga leið að þú skreppur ekki inn til að sækja eitthvað. Costco er stór búð, með stórum innkaupakerrum og almennt er lagt upp úr því að fólk versli þar inni í töluverðu magni í senn.
  5. Engir pokar og passa kvittunina. Costco er ekki með poka aðeins kassa og því er mikilvægt að taka með sér fjölnotapoka en pakka vörunum þannig að auðvelt sé að telja upp úr pokanum eða kassanum þar sem sýna þarf kvittun á leiðinni út.
mbl.is