Bernaise-sósa frá grunni

Sósan er upphaflega frönsk og minnir um margt á hollandaise-sósu.
Sósan er upphaflega frönsk og minnir um margt á hollandaise-sósu. mbl.is/Albert Eiríksson

Albert Eiríksson matarbloggari fór í matarboð og fékk þar himneska bernaisesósu gerða frá grunni. „Það má nú alveg tala um endurkomu bernaise-sósunnar, hún er kannski ekki sú hollasta  sem til er – en mikið er alvöru bernaise-sósa gerð frá grunni góð. Sósan er upphaflega frönsk og minnir um margt á hollandaise sósu. Bernaise passar sérstaklega vel með nautasteik og lambalæri – já ég held bara flestu kjöti,“ segir Albert sem fékk þessa guðdómlegu uppskrift hjá Gunnar Bjarnasyni.

Bernaise-sósa

12 eggjarauður
500 gr. smjör
Heimagerður essence (sjá hér að neðan)
1 msk. estragon
Salt og pipar

Bernaise essence

150 ml rauðvínsedik
150 ml hvítvínsedik
2 greinar estragon
10 piparkorn
1 skallot-laukur
1 rauður chillipipar.

Bernaise essence: Skerið laukinn smátt og chilli eftir endilöngu. Blandið öllu saman í lítinn pott og látið sjóða niður þar til ca. 2-3 msk. eru eftir af vökva í pottinum. Þetta er líklegast óvinsælasta aðgerðin á heimilinu þar sem lyktin sem stígur upp fer ekki fram hjá neinum.

Bernaise-sósa: Bræðið smjörið við lágan hita. Stífþeytið eggjarauðurnar með handþeytara.
Áður en smjörið fer út í blanda ég essence-inum hrært varlega útí eggjarauðurnar. Þegar smjörið er brætt þá verður að passa að það sé ekki of heitt, og því blandað varlega saman við eggjarauðurnar og hrært með písk á meðan. Ég nota ekki „hvitu kornin“ sem verða eftir neðst.


Estragon skorið smátt og bætt út í, smakkað til með salti og pipar. Ég ber hana fram kalda eða svo gott sem kalda.

mbl.is