French Toast með tvisti

Ljósmynd: People

French Toast er í miklu uppáhaldi hjá mörgum og fátt er betra en að byrja daginn á einu slíku – ekki síst ef sumarfrí er í gangi og sól skín í heiði. Þessi útgáfa er splunkuný að við teljum en sérlega spennandi. Hér er að finna alla grunnþætti góðs French Tost eins og egg og kanil en ávaxtamaukið gefur því spennandi yfirbragð. 

Í uppskriftinni er kveðið á um að nota megi hvernig brauð sem er en sérfræðingarnir hafa löngum mælt með brioche-brauði eða sambærilegu og að skorpan sé tekin af.

French Toast með tvisti

  • 250 ml möndlumjólk
  • 3 egg
  • 1 tsk. vanilludropar
  • ½ tsk. kanilduft
  • 60 ml hlynsíróp
  • 8 ferkantaðar brauðsneiðar að eigin vali
  • 2 litlar ferskjur, skornar í helminga og síðan í þunnar sneiðar
  • 1½ bolli bláber
  • 8 ferskar fíkjur, skornar í helminga
  • 2 msk. sítrónusafi

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200 gráður. Pískið saman möndlumjólk, eggjum, vanilludropum, kanildufti og 2 matskeiðum af hlynsírópi í miðlungsstóra skál.
  2. Raðið fjórum brauðsneiðum í bökunarform og hafið bökunarpappír undir. Mikilvægt er að allar fjórar sneiðarnar komist fyrir. Raðið ferskjunum jafnt ofan á brauðsneiðarnar. Hellið því næst möndlumjólkurblöndunni yfir ferskjurnar. Setjið hinar fjórar brauðsneiðarnar ofan á ferskurnar og hellið afganginum af möndlumjólkurblöndunni yfir. Notið sleikju eða sleif til að þrýsta samlokunum saman til að drekkja brauðinu vel í vökvanum. Setjið álpappír yfir og bakið í 20 mínútur. Takið þá álpappírinn af og haldið áfram að baka þar til brauðið er orðið gullinbrúnt.
  3. Á meðan brauðið er í ofninum skaltu setja bláberin, fíkjurnar, sítrónusafann og afganginn af sírópinu í pott. Látið suðuna koma upp og hrærið reglulega í pottinum. Lækkið undir og látið malla en hrærið reglulega í þar til ávextirnir eru orðnir maukkenndir og blandan minnir helst á þykkt síróp. Þetta ætti að taka 15-20 mínútur. 
  4. Til að bera fram skal setja „french toast“-samloku á disk og hella vænum skammti af ávaxtamaukinu yfir. 
  5. Ef ferskjur eru ekki í boði er alveg hægt að nota frosnar. Breytir litlu fyrir bragðið. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert