Með hjartað á matseðlinum

Gareth McCaughey, eigandi og yfirmatreiðslumeistari á The Muddlers Club í …
Gareth McCaughey, eigandi og yfirmatreiðslumeistari á The Muddlers Club í Belfast, í eldhúsinu. mbl.is/Sunna

„Ég var tvö ár að finna rétta staðsetningu fyrir veitingastaðinn minn,“ segir Gareth McCaughey, eigandi og yfirmatreiðslumeistari á The Muddlers Club í Belfast á Norður-Írlandi. Hann undirbjó opnunina í tvö ár. Á þeim tíma var hann kokkur á veitingastaðnum Ox sem féll vel í kramið hjá Írum sem og ferðamönnum. Árið 2016 fékk Ox Michelin-stjörnu. Viku síðar hætti McCaughey þar störfum og opnaði The Muddlers Club. „Það var algjör tilviljun að ég hætti á þeim tímapunkti,“ segir hann hlæjandi í samtali við mbl.is þar sem hann stendur í eldhúsinu eftir enn eitt vel heppnað kvöld. Matargestirnir koma hver á fætur öðrum og taka í höndina á honum og þakka fyrir sig. „Þjónustan var framúrskarandi,“ segir einn þeirra. „Vínið var fullkomið með matnum,“ segir annar. Hinn metnaðarfulli McCaughey er sáttur.

Nefnt eftir leynifélagi

Muddlers Club er ekki í alfaraleið. Og einmitt þannig vill McCaughey hafa það. Staðurinn hans kúrir í sögufrægri bakgötu í Dómkirkjuhverfinu í Belfast, á milli Waring-strætis og Exchange Place. Nafnið Muddlers Club er fengið að láni frá leynilegum félagsskap sem fundaði á þessum slóðum fyrir meira en 200 árum.

Settleg klúbbastemning ræður ríkjum á Muddlers Club.
Settleg klúbbastemning ræður ríkjum á Muddlers Club. Af heimasíðu Muddlers Club

„Fyrst þegar við opnuðum fundu leigubílstjórarnir ekki staðinn,“ segir McCaughey. Af því hafði hann engar áhyggjur. Hann hafði nægilega mikið sjálfstraust til að stóla á að sjálfsprottinn áhugi fólks á Muddlers Club myndi koma honum á kortið.

Það reyndist hárrétt mat. Af staðnum fer mjög gott orð og er hann einn sá vinsælasti í Belfast um þessar mundir og hefur hlotið mikið lof veitingahúsargagnrýnenda. „Við nutum vinsælda frá upphafi. Það má segja að við séum vinsælt leyndarmál,“ segir McCaughey og brosir. Svæðið í heild er nú að fyllast af lífi á ný eftir ládeyðu síðustu ára og Muddlers Club á þar stóran hlut að máli.

Nauðsynleg tengsl við samfélagið

Og það eru ríkar ástæður fyrir vinsældunum. Sú stærsta er eflaust sú að McCaughey hefur lagt allt sitt undir og aldrei kvikað frá þeirri hugmynd að tengjast samfélaginu í Belfast í einu og öllu, hvort sem það varðar hráefnið sem hann kaupir til matreiðslunnar eða efnið í innréttingarnar. Mágkona hans hannaði staðinn eftir hans skýru sýn. Borðplöturnar eru úr timbri sem fékkst m.a. úr kirkju sem var verið að gera upp. Svuntur þjónanna og matreiðslumannanna eru úr líni sem framleitt er í borginni. Kjötið og grænmetið er keypt af bændum á Norður-Írlandi og sérvalið, og stundum sérframleitt, fyrir Muddlers Club. McCaughey fer sjálfur til fundar við þá nær daglega til að velja það besta. „Þú verður að leggja hjarta þitt í þetta og vera stöðugt á tánum. Það þýðir ekkert að slaka á. Þú verður að gera kröfur til sjálfs þín, aðeins þannig nærðu að fá allt starfsfólkið með þér í lið og halda gæðunum á þeim stað sem þú vilt. Öðruvísi gengur þetta ekki.“

Börnin til aðstoðar

McCaughey er kvæntur tveggja barna faðir. Viðvera hans á Muddlers Club er mikil og hann viðurkennir að það sé erfitt að samþætta starf í veitingageiranum og fjölskyldulífið. „En við hjálpumst öll að, börnin mín koma hingað á sunnudögum og skræla kartöflur,“ segir hann brosandi.

Maturinn á Muddlers Club ber þennan metnað og ástríðu eigandans með sér. Matseðillinn er einfaldur og mikið er lagt upp úr vínpörun. Í því eru þjónar staðarins sérfræðingar. Á matseðlinum er m.a. 5 rétta smakkmáltíð með viðeigandi vínum. Saman kostar þetta 70 pund eða rúmlega 9.000 krónur. 

Nafn staðarins er dregið af leynifélagi sem hélt fundi sína …
Nafn staðarins er dregið af leynifélagi sem hélt fundi sína í hverfinu fyrir um 200 árum. Af heimasíðu Muddlers Club

Muddlers Club hefur yfirbragð klúbbs, skemmtistaðar fyrir bragðlaukana. Við innganginn er bar og þegar komið er inn í veitingasalinn blasir eldhúsið við. Það er því hægt að fylgjast með matreiðslumönnunum útbúa máltíðina og úr verður nokkurs konar leikhúsupplifun.

„Það er smáatriðin sem skipta öllu máli,“ segir McCaughey að síðustu við blaðmann áður en hann rýkur í það að aðstoða við að ganga frá og slökkva á eldavélunum að aflokinni síðustu máltíðinni þetta kvöldið.  

Á morgun kemur nýr dagur og nýir gestir. Fullvíst má telja að neisti eigandans og yfirmatreiðslumannsins muni skíðloga á ný.

Heimasíða Muddlers Club.

Muddlers Club á Trip Advisor.

Veitingahúsagagnrýni.

Air Iceland Connect, áður Flugfélag Íslands, hefur hafið beint flug frá Keflavík til Belfast. Flugtíminn er um tveir og hálfur tími og lent er á flugvelli í borginni sjálfri. Höfundur þessarar greinar fór til Belfast í boði flugfélagsins og írska ferðamálaráðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert