Uppskrift að fullkominni morgunrútínu

Ekki er verra að byrja daginn á svona dásemd.
Ekki er verra að byrja daginn á svona dásemd.

Að vakna getur verið býsna mikið basl og flestir kannast við að sofa yfir sig eða „snúsa“ of lengi. Það þýðir oftast að rokið er af stað, þú klæðir þig í flýti, borðar á hlaupum, bölvar í umferðinni, gleymir helmingnum af dótinu þínu og dagurinn fer á hliðina. 

En það er hægt að breyta þessu og það er merkilega auðvelt og ef þú fylgir þessum morgunráðum er nánast gulltryggt að dagarnir verða betri og þú afkastar meiru.

1. Farðu fyrr að sofa. Mögulega leiðinlegasta ráð í heimi en þetta virkar í alvörunni. Góður svefn þýðir að þú ert betur sofinn (eðlilega) og það verður auðveldara að vakna.

2. Vaknaðu á undan öllum í fjölskyldunni eða nokkuð löngu áður en þú þarft að mæta í vinnu. Sá tími er ótrúlega dýrmætur og margir nota hann til að skipuleggja daginn, hella sér upp á kaffi eða borða morgunmatinn í ró og næði. Þetta er hálfgerð hugleiðsla og þú nærð að stilla þig af og takast á við verkefni dagsins mun betur en ella. 

3. Farðu í sturtu. Meira að segja þegar þú ert að farast úr þreytu skaltu beita þig harðræði og velta þér fram úr rúminu og inn í sturtuna. Það virkar.

4. Morgunmaturinn... klárlega það mikilvægasta. Helltu þér upp á gott kaffi og vertu búin/n að gera allt klárt kvöldið áður. Að labba inn í eldhús í rúst er ekki góð byrjun á deginum.

5. Gakktu frá eldhúsinu kvöldið áður. Það er MJÖG mikilvægt að þrífa eldhúsið kvöldið áður og hafa aðkomuna þannig að þú þurfir bara að sækja þér matinn eða ýta á einn takka eða svo. Best er auðvitað að vera búin/n að undirbúa morgunmatinn einnig, sérstaklega ef þú ætlar að fá þér chia-fræ eða annað því um líkt. Lykillinn hér er að vera búin/n að gera eins mikið og hægt er kvöldinu áður þannig að morguninn verði rólegur og notalegur. Best er auðvitað að hafa tíma til að lesa blöðin í leiðinni.

6. Farðu fyrr að sofa. Í alvöru – það virkar. 

mbl.is