Heilgrillað lamb að hætti læknisins

Læknirinn í eldhúsinu, Ragnar Freyr Ingvarsson, kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að mat. Hann bauð til veislu og lét sig ekki muna um að heilgrilla lamb í innkeyrslunni heima hjá sér. Veislan tókst að vonum vel enda ekki við öðru að búast. 

Sjálfur segir hann að það sé stórskemmtilegt að heilgrilla lamb og börnum þyki það sérstaklega skemmtilegt. 

Heilgrillað lamb með marokkóskum draumum - ásamt hummus, chilitómatsósu, hvítlaukssósu, salati og marineruðum fetaosti

Fyrir 40 

  • 1 lambaskrokkur
  • 1 l jómfrúarolía
  • 1 staukur marokkóskir draumar
  • salt og pipar
  • 3 hvítir laukar
  • 10 hvítlauksrif
  • 5 msk jómfrúarolía
  • 3 rauðir chilipiprar
  • 5 dósir tómatar
  • 1/2 túba tómatpúré
  • tabaskó
  • salt og pipar
  • 4 dósir kjúklingabaunir
  • 4 msk. tahini
  • safi úr tveimur sítrónum
  • 6 hvítlauksrif
  • salt og pipar
  • 500 ml jómrúarolía
  • 400 g fetaostur
  • handfylli rósapipar
  • 1 rauður laukur
  • handfylli steinselja og mynta
  • salt og pipar
  • nóg af tortillum

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skola skrokkinn og þerra. 
  2. Við notuðum kryddblönduna sem ég útbjó með Krydd- og tehúsinu - þetta er blanda sem ég útbjó fyrir bókina mína, Grillveisluna, sem kom út í fyrra. Hún er sérstaklega ljúffeng. Þetta er blanda úr paprikudufti, broddkúmeni, engifer, pipar og fleira góðgæti. Hún er einstaklega góð á lamb og kjúkling. 
  3. Fyrst er að þræða lambið upp á spjót. Ég á mótorknúið spjót sem ég keypti í Svíþjóð og er ansi þægilegt.
  4. Ég blandaði heilum stauk af marokkóskum draumum saman við jómfrúarolíuna og penslaði í þykku lagi á allt lambið.
  5. Það skiptir miklu máli að stjórna hitanum eins vel og maður getur. 
  6. Þegar lambið fór að brúnast heldur mikið á slögunum - klæddum við lambið í pils.
  7. Eftir þrjá og hálfan tíma var kjötið tilbúið! 
  8. Maður þarf fyrst að skoða það aðeins. Að mínu mati reyndist það vera fullkomlega eldað.
  9. Svo er bara að skera - og skera meira!
  10. Skerið laukinn, hvítlaukinn, chilipiparinn niður gróft og steikið í olíu. Saltið og piprið. Hellið tómatinum, púréinu útí og sjóðið upp. Bragðbætið með salti, pipar og tabaskó. 
  11. Setjið fetaostinn í skál og hellið jómfrúarolíu yfir. Þessi mynd var tekin úr bókinni minni - þar sem ég marineraði með ólífum og kapers. En fyrir veisluna notaði ég rósapipar og rauðlauk. 
  12. Hummus er eins einfaldur og hugsast getur. Kjúklingabaununum, tahini og hvítlauk er blandað saman í matvinnsluvél. Svo hellir maður olíunni þangað til hummusinn fær þá þykkt sem óskað er eftir. Næst sítrónusafa og svo er saltað og piprað
  13. Skerið grænmetið niður - og blandið saman við salatið. 
  14. Svo er bara að njóta. Rista tortilluna á grillinu og leggja á disk, svo chilitómatsósu, lambið, hummus, salat og marineraðan fetaost. 
  15. Hreinasta sælgæti!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert