Landsliðs-bernaise og stórkostlegt nautakjöt

Landsliðskokkurinn Kara Guðmundsdóttir mætir í þriðja þátt Grillað með Tobbu og kennir þar réttu handdtökin við meðferð og grillun nautakjöts. Hún ákvað að grilla rib-eye-steik og gera bernaise-sósu eftir kúnstarinnar reglum. Meðfylgjandi er jafnframt uppskrift að bernaise-krafti en það er nauðsynlegt að laga einn slíkan að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Þrátt fyrir að ekki hafi viðrað vel undanfarið til utandyraeldmennsku má halda í vonina um að það breytist og þá er eins gott að vera tilbúinn.

Kara er sem áður segir liðsmaður í íslenska kokkalandsliðinu en slíkt þykir alla jafna mikil upphefð. Það voru því sönn forréttindi fyrir Matarvefinn að fá Köru í þáttinn og við mælum að sjálfsögðu með að þið klippið út þessa uppskrift og límið kirfilega inn í uppskriftabókina.

Bernaise-essense/kraftur

 • 75 gr. hvítvínsedik
 • 75 gr. rauðvínsedik
 • 4 stk. piparkorn
 • 1 stk. shallot-laukur
 • 4 stk. piparkorn
 • ½ chilli rauður

Aðferð

 1. Svitið laukinn og chilli í potti
 2. Bætið edikinu út í ásamt piparnum og sjóðið niður um 2/3
 3. Kælið

Bernaise-sósa

 • 6 stk. eggjarauður
 • 250 gr. ósaltað smjör
 • 1 msk. þurrkað fáfnisgras
 • ½ tsk. salt
 • 2 msk. bernaise-essense

Aðferð

 1. Bræðið smjörið í potti yfir mjög lágum hita.
 2. Þeytið eggin yfir vatnsbaði og passið að hitinn fari ekki yfir 80°C og að eggin eldist ekki í botninum.
 3. Takið eggin af hitanum og hellið smjörinu rólega við og hrærið allan tímann. Passa þarf að skilja hvíta vökvann í botninum.
 4. Bætið fáfnisgras út í og smakkið svo til með bernaise-essense og salti.

Sætar kartöflur

 • 1stk. sæt kartafla
 • 2 msk. repjuolía
 • 1 tsk. salt
 • 1 tsk. svartur pipar

Aðferð

 1. Skerið sæt kartöfluna í 3 cm þykkar sneiðar
 2. Pennslið með olíunni og raðið á bakka til að strá saltinu og piparnum jafnt yfir.
 3. Setjið á volgari flötinn á grillinu svo að kartaflan brenni ekki.
 4. Grillið í u.þ.b. 10 mín. á hvorri hlið (eldunartími fer eftir stærð og þykkt)

Nauta rib-eye

 1. Takið kjötið úr kæli klukkutíma fyrir eldun.
 2. Leggið kjötið á grillið í mjög heitum stað og EKKI hreyfa við því fyrr en þú snýrð því við!
 3. Grillið í 3-5 mín. á hvorri hlið (eldunartími fer eftir þykkt bitans)
 4. Takið kjötið af grillinu og vefjið því í álpappír þar sem það hvílir í 15 mínútur. Það að hvíla kjötið er jafnmikilvægt og að grilla það, þannig að biðin er klárlega þess virði.

Steikt brokkolí

 • 1 stk. brokkolíhaus
 • 75 gr. smjör
 • salt
 • ½ grilluð sítróna
 • 2 msk. repjuolía

Aðferð

 1. Hitið pönnu og setjið olíuna á.
 2. Raðið brokkolíinu þannig að hver biti snerti pönnuna.
 3. Setjið klípu af salti á pönnuna.
 4. Þegar brokkolíið er orðið gullinbrúnt skaltu snúa því við og bæta smjörinu við.
 5. Passið að pannan sé heit svo að smjörið freyði. Færið bitana efst á pönnuna.
 6. Bætið sítrónunni við og hallið pönnunni að ykkur þannig að smjörið sé neðst og brokkolíið og sítrónan efst. Notið skeið til að hella smjörinu yfir hráefnið í 20 sekúndur.
 7. Takið af hitanum.
mbl.is/ÞS
mbl.is