Brauðrétturinn sem sló í gegn

Það er eitt sem víst er: Íslendingar elska brauðrétti og hjá mörgum er hann nánast trúarbrögð. Hinn hefðbundni skinku- og aspasréttur er klassískur og svo má ekki gleyma hvers kyns útfærslum sem fela í sér rækjur en margir eru sólgnir í þær.

Ég mætti með þennan brauðrétt í afmæli hjá systur minni á dögunum en hann er langt því frá að vera mín uppfinning. Upphaflega uppskriftin sem ég notaði upphaflega innihélt einnig papriku og skinku en í þetta skiptið ákvað ég að hafa hann eins einfaldan og ég gat og niðurstaðan var hreint út sagt frábær – svo góð reyndar að einhver hafði á orði að þetta væri langbesti brauðréttur sem hann hefði smakkað en ég sel það ekki dýrar.

Ostabrauðréttur með rifsberjahlaupi

  • 1/2 samlokubrauð
  • 1 camembert
  • 1 dímon
  • 1/2 l rjómi
  • 1 poki rifinn ostur
  • salt og pipar eftir smekk
  • rifsberjasulta – til að bera fram með réttinum

Aðferð:

  1. Ristið brauðið og rífið svo sneiðarnar niður í munnbitastóra bita í ofnhelt mót.
  2. Setjið rjómann, camembertinn, dímoninn og helminginn af rifna ostinum saman í pott og hitið.
  3. Bræðið ostinn eins vel og þið geti en passið að suðan komi alls ekki upp. Osturinn mun þó aldrei bráðna alveg þannig að ekki hafa áhyggur af því. Kryddið með salti og pipar.
  4. Hellið blöndunni yfir brauðið og reynið að bleyta alla bitana smá. Stráið afgangnum af ostinum yfir og setjið í 150 gráðu heitan ofn í 15-20 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn.
  5. Berið brauðréttinn fram heitan og bjóðið upp á rifsberjasultu með.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert