Var ráðinn á staðnum

Jakob Jónsson.
Jakob Jónsson. Ljósmynd: Eva Vestmann

Það er oft sagt um Íslendinga að þeir séu alls staðar og að íslenskir heimshornaflakkarar megi eiga von á að rekast á samlanda sína á ótrúlegustu stöðum. Mörgum gæti samt brugðið þegar kaupa á flösku af hinni gríðarlega bresku brjóstbirtu í einni stærstu viskíverslun Lundúnaborgar að fá afgreiðslu á íslensku. 

Akureyringurinn Jakob Jónsson er mögulega Íslendinga fróðastur um viskí. Hann hefur starfað í Royal Mile Whiskies á Bloomsbury Street frá því hann rak þar inn nefið fyrir níu árum, með litla þekkingu á viskíi en afskaplega fróðleiksfús. „Viskí hafði heillað mig lengi og mig langaði að læra meira um það og smakka sem flestar tegundir, en ég var alls enginn sérfræðingur í því þá.“

Þau hjónin, Jakob og Eva Vestmann, voru þá nýlega flutt til London, þar sem Eva nam grafíska hönnun við Central Saint Martins og Jakob var að litast um eftir vinnu. „Búðin í London er rétt hjá British Museum og einn daginn þegar við vorum að koma af safninu rákum við augun í hana og sáum að verið var að auglýsa eftir starfsmanni sem væri vel að sér um viskí. Ég var með ferilskrá meðferðis svo ég ákvað að demba mér þarna inn og kynnti mig fyrir þáverandi verslunarstjóranum og spjallaði aðeins við hann.“

Eitthvað hefur verslunarstjóranum litist vel á þennan unga Íslending því hann réð Jakob á staðnum og hafa þeir verið bestu vinir síðan. „Og þarna fékk ég alla þjálfun mína og fræðslu um viskí,“ segir Jakob, sem í dag er orðinn aðstoðarverslunarstjóri og þekkir viskíbransann í Bretlandi út og inn. „Ég er búinn að fara á alls konar námskeið og kynningar, læra að halda kynningar og er í beinu sambandi við alla helstu viskíframleiðendurna hér.“

Jakob heimsækir enskar, írskar og skoskar viskíverksmiðjur reglulega, fylgist náið með nýjungum, smakkar viskívísa og bíður spenntur eftir afrakstrinum. Hann segir viskímenningu nátengda matarmenningu; það sé ekki drukkið vegna áhrifa áfengisins heldur einungis bragðsins vegna og örfáir sopar, stundum bara einn lítill, dugi til að kalla fram ánægjuna sem felist í viskídrykkju.

Bíður eftir Flóka

Royal Mile Whiskies var upprunalega opnað 1991 í Edinborg í Skotlandi, við götuna frægu Royal Mile, en útibúið í London var opnað 2001. Þar er að finna eitt mesta úrval viskís í London og fyrir tilstilli Jakobs má þar einnig finna íslenskan bjór, brennivín og tvær tegundir af íslenskum vodka. „Við byrjuðum á að prófa að selja Einstök árið 2011, sem er nú orðinn gríðarlega vinsæll bjór hér og fæst á mörgum börum og vínverslunum. En svo erum við farin að selja bjór frá brugghúsinu Borg líka og er þetta eina verslunin í London sem selur hann.“

Jakob segir Breta og aðra útlendinga forvitna um að smakka íslenskan bjór og því seljist hann ágætlega, fólki þyki það nokkuð sérstakt að geta prófað hann en einnig kaupi sumir hann aftur og aftur. Þá nýti margir Íslendingar í London sér það að geta keypt sinn íslenska bjór í búðinni hjá Jakobi. Íslendingar vilja hins vegar ekki láta sitt eftir liggja í viskíframleiðslunni og nú er þess beðið með nokkurri eftirvæntingu að viskíið Flóki frá Eimverki verði tilbúið. „Ég er búinn að smakka viskívísinn þeirra, en það má strangt til tekið ekki kalla bruggið viskí fyrr en það er orðið þriggja ára, og mér leist vel á. Ég hef smakkað marga viskívísa og þessi lofar mjög góðu,“ segir Jakob.

Hann segir mikla grósku í viskímenningunni í heiminum, Japanar séu til að mynda farnir að framleiða mikið af góðu viskíi og fleiri og fleiri langi til að kynnast leyndardómum viskís. Jakob segir að fyrsta reynsla margra sé af blönduðu viskíi en fyrir byrjendur mælir hann með því að byrja rólega, á léttu og fersku maltviskíi og jafnvel bæta vatni út í til að róa það aðeins niður. „Reyndar byrjaði ég í djúpu lauginni, fór beint í Bowmore og síðan Laphroaig, en það er eitthvað við okkur Norðlendingana og reyktan mat sem virðist yfirfærast auðveldlega yfir á smekk okkar á viskíi. Þetta er alveg eins og með mat, til dæmis osta, það eru til svo margar gerðir og bragðtegundir og sumu bragði þarf að venjast áður en manni fer að þykja það gott.“

Jakob býður Íslendinga sérstaklega velkomna í búðina til sín til að fræðast um og smakka viskí en jafnframt opnaði hann nýlega fyrsta íslenska veftímaritið um viskí, Viskíhornið, og er óþreytandi við að setja ábendingar um viskí og viskímenningu á Facebook- og Twitter-síður Viskíhornsins.

„Þarna set ég inn ýmsan fróðleik og er til dæmis búinn að taka saman lista yfir allar viskíverksmiðjur í Skotlandi, hvar þær eru, hvernig nafnið er borið fram og smávegis upplýsingar um framleiðsluna. Svo stefni ég að því að bæta við listann viskíverksmiðjum frá öðrum löndum.“ Viskíhornið er því góður staður til að kíkja á áður en haldið er til Bretlands og svo ætti allt viskíáhugafólk að kíkja við hjá Jakobi í búðinni í London, eða þeirri upprunalegu í Edinborg, og leyfa fagmönnunum þar að leiðbeina sér við val á næstu flösku. Einnig er Jakob opinn fyrir því að taka á móti hópum eða halda fræðsluerindi og smakkanir fyrir Íslendinga, hvort sem er í Bretlandi eða á Íslandi.

Ljósmynd: Eva Vestmann
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »