Kremuð blómkálssúpa með klettakáli

Góðar súpur eru fullkomin leið til að hægja á sér eftir ofát sumarsins fyrir utan hvað þær eru notalegar á svölum sumarkvöldum. Þessi súpa er í sérstöku uppáhaldi og best er hún með nýju íslensku grænmeti.

1 laukur
1 hvítlauksrif
600 g blómkál
100 g nýjar kartöflur
400 ml grænmetissoð (eða 400 ml vatn og tveir teningar)
200 ml matreiðslurjómi
salt
pipar
lúka grænkál eða klettasalat
olía/smjör

Sjóðið blómkálið og kartöflurnar uns það er mjúkt. Athugið að kartöflurnar þurfa lengri tíma svo kippa skal blómkálinu upp úr pottinum áður til að ofsjóða það ekki.

Saxið laukinn og hvítlaukinn og steikið upp úr olíu eða smjöri uns hann verður mjúkur og glær.

Blandið soðinu, lauknum, kartöflunum, og 2/3 af blómkálinu saman við. Maukið með töfraspota ásamt káli, rjóma, salti og pipar. Smakkið til og kryddið meira ef þarf. Skerið blómkálið gróft og bætið út í súpuna svo blómkálsbitar séu í henni. Berið fram með smá söxuðu káli sem topp og rifnum parmesan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert