Ómótstæðilegur lax með asísku tvisti

mbl.is/Jen´s Delicious Life

Fiskur að asískum hætti er eitt það besta sem hægt er að borða. Hér notar Jennifer lax sem er marineraður upp úr dásamlegri blöndu sem er eins austurlensk og þær gerast. Núðlurnar bæta síðan enn við þennan gómsæta rétt en auðvitað er líka hægt að bjóða upp á hrísgrjón, salat eða kartöflur með fyrir þá sem það vilja. Við mælum þó með að fólk prófi sig áfram með steikt grænmeti því það er eitt besta meðlæti sem hægt er að fá.

Fyr­ir þá sem vilja lesa meira af snilld­ar­upp­skrift­um Jenni­fer er hægt að fylgj­ast með henni inni á Trend­net og á Jen´s Delicious Life.

Ómótstæðilegur lax með asísku tvisti
Fyrir fjóra

 • 600 gr af laxi með roði

Marinering:

 • 4 msk soyasósa
 • 2 msk sesamolía
 • 3 msk hunang
 • 2 msk hrísgrjónaedik
 • 4 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
 • 1 msk engifer, smátt saxað

Núðlur í wok

 • 1 msk grænmetisolía
 • 4 vorlaukar, saxaðir
 • 1 rautt chilli, kjarnhreinsað og saxað
 • 7-10 sveppir, skornir í helminga
 • 100 gr sykurbaunir
 • 1 gulrót, skræld og rifin
 • 1 lítil dós af litlum maísstönglum
 • 200 gr hefðbundnar núðlur
 • 2 msk kjúklingakraftur
 • 2 dl vatn
 • soyasósa, eftir smekk
 • 1 dl ristuð sesamfræ

Aðferð:

 1. Undirbúið marineringuna með því að blanda öllu hráefninu saman í skál og blanda vel saman.
 2. Setjið laxinn í bökunarform og látið roðið snúa niður. Hellið helmingnum af marineringunni yfir, setjið plastfilmu yfir og geymið í kæli í að minnsta kosti tvo tíma.
 3. Eldið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum, hellið vökvanum af og setjið til hliðar.
 4. Hitið grænmetisolíuna á stórri pönnu á miðlungshita. Bætið vorlauknum og chilli samanvið og steikið í tvær mínútur. Bætið afgangnum af grænmetinu á pönnuna og steikið í fimm mínútur.
 5. Hellið afgangnum af marineringunni yfir grænmetið ásamt kjúklingakraftinum og vatninu. Látið suðuna koma upp.
 6. Bætið núðlunum saman við og ristuðu sesam fræjunum. Blandið vel saman. Smakkið til og bætið soyasósu saman við ef þurfa þykir.
 7. Takið laxinn og þerrið lítillega af honum. Steikið laxinn á pönnu á miðlungshita. Steikið fyrst hliðina með roðina í um þrjár mínútur og snúið svo við og steikið í tvær mínútur.
 8. Ef ykkur finnst laxinn of lítið eldaður skulið þið breiða yfir hann þar til hann er borinn fram. Þannig eldast hann áfram meðan beðið er. Með þessum hætti er engin hætta á að fiskurinn ofþorni.
 9. Berið laxinn fram með núðlunum og hellið ögn af sesamolíu yfir.
mbl.is/Jen´s Delicious Life
mbl.is/Jen´s Delicious Life
mbl.is