Hlauparáð og orkuuppskrift frá fyrrum letipúka

Kristín Ýr elskar rauðrófuþeytinga og segir þá gefa sér orku.
Kristín Ýr elskar rauðrófuþeytinga og segir þá gefa sér orku. mbl.is/samsett

Kristín Ýr Gunnarsdóttir var hefðbundin sófakartafla með 3 börn, alltof mikið að gera og fullan vask af óhreinu leirtaui. Ástand sem margir kannast við. Í dag er hún í þrusuformi og hleypur og hjóla til skiptist eins og ekkert sé. Líkamsrækt er í dag hennar leið til að vinna úr erfiðleikum og sjá til þess að kroppurinn geti tekið við daglegu amstri og kvíði og stress eru skilinn eftir á götum borgarinnar. 

Hvað gerðist?
„Í mínum huga snýst þetta örlítið um að sigra sjálfan sig. Þá er ég ekki að tala um að setja einhver heimsmet. Heldur bara sigra þær hugsanir sem koma upp í hausinn og benda okkur á að það sé betra að vera í sófanum en fara út að hreyfa sig. Hugsanirnar eru nefnilega ótrúlega lævísar og kyrrsetja okkur oftar frekar en líkaminn. Umferðin er of mikil, það gæti komið rigning eða við teljum okkur trú um að við séum of þreytt. Ég hef lært það í gegnum mína hreyfingu að láta ekkert stoppa mig og þá allra síst veðrið. Því eins og ein snilldar manneskja sem ég þekki segir: veðrið er alltaf verra inni en úti! Auðvitað eru allir í misjafnlegu líkamlegu formi. En flest höfum við það mein að hausinn segir okkur að við getum ekki eitthvað sem við getum svo sannarlega. Regla númer eitt, tvö og þrjú er því ekki hlusta á sjálfa þig, farðu bara af stað og sigraðu hugann! Það er svo gott!“

Hvernig undirbýrðu þig fyrir hlaup ?
„Ég undirbýr hugann vel. Ég er ekki kona sem hleyp maraþon. Ég er meira í styttri vegalengdum og keppa við eigin tíma í þeim. Mér hefur reynst vel að nýta hugleiðslur sem hjálpa mér að finna fókusinn og innblásturinn. Í hlaupum passa ég mig líka á því að hugsa aldrei neikvætt. Ég hugsa ekki 'þetta verður erfitt' ég hugsa 'þetta verður gaman' og ég segi ekki við sjálfa mig „Ohh ég á svo marga kílómetra eftir“ ég hugsa „frábært að ég sé búin að hlaupa nokkra kilometra“. Hugurinn er því mín stærsta áskorun þegar kemur að undirbúningi. Svo auðvitað fer ég út að hlaupa og yfir vetrartímann lyfti ég lóðum til að koma sterk inn í sumarið.“

Kristín Ýr segir líkamsrækt vera mikilvæga gegn streitu og kvíða …
Kristín Ýr segir líkamsrækt vera mikilvæga gegn streitu og kvíða en hún hefur dílað við sinn skammt í gegnum tíðina. mbl.is/


Hvert er þitt besta hlauparáð?

„Mitt besta ráð er njóttu þess og hafðu gaman af þeirri hreyfingu sem þú velur þér. Búðu þér til hlaupahóp og farðu út að hlaupa með skemmtilegu fólki, nýttu hreyfinguna í að spjalla, hlægja og slúðra með vinkonum og vinum. Sú iðja má alveg gerast á hlaupum eins og inni á bar!“

Hvernig borðar þú fyrir hlaup?
„Ég passa að næra og vökva mig vel. Drekk mikið vatn og passa upp á að mig vanti ekki steinefni og annað í kroppinn. Fyrir hlaup hentar mér vel að borða tveimur tímum áður og svo fæ ég mér alltaf banana klukkutíma fyrir. Ég hugsa um að fæðan sé orkurík og hef einstakan áhuga á rauðrófum þessa dagana. Ég gæti drukkið rauðrófusafa og borðað rauðrófur í öll mál. Svo keypti ég er rauðrófuduft, blanda því í vatn og engiferskot og helli því í mig nokkra daga fyrir hlaup og á hlaupadaginn. Rauðrófan hefur svo góð áhrif, eykur blóðstreymi og súrefnisflutningur verður hraðari. Svo er pasta alltaf gott fyrir hlaup og hjólaátök,“ segir Kristín sjarmatröll og deilir hér með okkur einni af sinni uppáhalds rauðrófuuppskrift.

Bleiki draumurinn

2 dl vatn
1 dl rauðrófusafi
½ pera 
1 msk kókosmjöl
1 dl kókosmjólk 
1 vel þroskaður banani
2 dl frosin ber

Allt sett í blandara með klaka og blandað uns kekkjalaust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert