Stórfenglegur fiskréttur með humar- og hvítvínssmjöri

Hvítvíns-, greip-, humar- og smjörsósan er stórkotleg!
Hvítvíns-, greip-, humar- og smjörsósan er stórkotleg! mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Apótekið er margrómað fyrir góða fiskrétti og því laumaði Matarvefurinn sér inn í eldhús og nappaði matreiðslumenn staðarins að störfum. Ekki láta langa uppskriftina fæla ykkur burt því í raun er þetta mjög einfaldur réttur þar sem gott hráefni fær að njóta sín.

Sósa er svo algjört undur!

Fiskurin

800 gr.  skarkolaflök
Salt
Olía    

Aðferð: Gott er að salta flökin tveim mínútum áður en fiskurinn er steiktur.

Olían er sett á pönnuna og sett á miðlungsháan hita, þegar pannan er orðin heit þá er skarkolinn steiktur á roðhliðinni, þegar roðið er orðið gullinbrúnt (sirka þrjár mínútur) þá er fisknum snúið við og kláraður á pönnunni (sirka 1-2 mínútur).

Kartöflumús

4 stk.  bökunarkartöflur
250 ml rjómi
125 gr.  smjör
salt

Aðferð: kartöflurnar skrældar og skornar í jafnstóra bita. Bitarnir settir í sjóðandi vatn og þeir soðnir þar til þeir eru tilbúnir (sirka 5-7 mínútur). Þegar kartöflurnar eru eldaðar þá er þeim hellt í sigti og leyft að rjúka úr þeim.
Rjóminn og smjörið er sett í pott og hitað þar til smjörið er bráðið.
Kartöflurnar eru stappaðar (hægt að nota kartöflustöppu eða stífan písk)
Rjómanum og smjörinu því næst blandað við kartöflurnar og hrært í með sleif þar til að þetta hefur allt blandast vel saman, smakkað til með salti.

Beurre Blanc
200 ml  Humarsoð
100 ml  Hvítvín
300 gr.   Smjör
1 stk.      Sítróna
1 stk.      Greip
1 stk.      Appelsína
50 gr.     Sjávargras (ef fólk vill)

Aðferð: Smjörið er skorið í teninga (sirka 2 cm) og sett inn í kæli.

Humarsoðið og hvítvínið er sett í pott og hitað að suðu, því næst er lækkað undir pottinum og smjörinu bætt við rólega, Passa að hræra stanslaust með písk. Það þarf að passa upp á hitastigið á sósunni á meðan verið er að hræra smjörinu við þar sem sósan má ekki fara yfir 80°C og má ekki heldur verða of köld því þá skilur hún sig. Þegar allt smjörið er komið í þá á sósan að vera þykk og glansandi, þarf að passa að hún sé geymd við lágan hita ef á ekki að bera hana fram strax.

Gott er að bæta við sítrusávöxtum og sjávargrasi í hana þegar hún er borin fram

Þá er börkurinn skorinn af sítrus ávöxtunum og „laufin“ skorin úr, þ.e.a.s sítrusinn er skorinn úr með litlum hníf og passa að ekkert af þessu hvíta komi með.

Aspas

250 g ferskur aspas
Smjör                                                       

Aðferð: fínt er að skræla stöngulinn og skera neðst af honum (sirka 2-3 cm eða þar sem hann er eins og tré). Hann er því næst steiktur við vægan hita uppúr smjöri í 3-4 mín.

Öllu raðað saman á disk….og svo er bara að njóta!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert