Heimabakað brauð í nestisboxið

Sérdeilis girnilegt brauð.
Sérdeilis girnilegt brauð. mbl.is/blaka.is

Það þykir sérdeilis heimilislegt að bjóða upp á heimabakað brauð og þeir sem vilja taka þetta alla leið mæta auðvitað með slíkt góðgæti í nesti. Lilja Katrín á Blaka.is er mikil brauðáhugakona og birti þessa uppskrift sem hún segist afskaplega hrifin af. Einfaldleikinn er mikill sem þýðir að venjuleg manneskja með meðalgreind ætti að ráða við hana án þess að tilveran fari á hliðina.

Brauðið ber það með sér að vera sérdeilis bragðgott enda smakkast allt vel sem inniheldur hunang. Svo einfalt er það. En uppskriftin er hér að neðan og við hvetjum ykkur til að prófa.

Heimabakað brauð í nestisboxið
  • 3 bollar volgt vatn
  • 2 pakkar þurrger
  • 2/3 bolli hunang
  • 3 bollar hveiti
  • 5 ½ bolli heilhveiti
  • 5 msk. smjör – brætt
  • 1 msk. salt
  • Smá sjávarsalt.

Leiðbeiningar

  1. Blandið saman vatni, þurrgeri og 1/3 bolla hunangi í stórri skál. Blandið 3 bollum af hvítu hveiti saman við og leyfið þessu að bubbla í hálftíma.
  2. Blandið 1/3 bolla af hunangi, 3 msk. af bræddu smjöri og 3 bollum af heilhveiti saman við gerblönduna.
  3. Skellið deiginu á borð og hnoðið restina af heilhveitinu saman við smátt og smátt eða þar til deigið er ekki það klístrað að það festist við fingurna.
  4. Setjið deigið aftur í skálina og hyljið með viskastykki. Leyfið þessu að hefast við stofuhita í um klukkutíma eða þar til deigið hefur tvöfaldast.
  5. Hitið ofninn í 175°C og búið til tvo brauðhleifa úr deiginu. Skellið þeim á smjörpappírsklædda ofnplötu og penslið með restinni af smjörinu. Stráið sjávarsalti yfir brauðin og bakið í 25-30 mínútur.
Brauðið ber það með sér að vera bráðhollt.
Brauðið ber það með sér að vera bráðhollt. mbl.is/blaka.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert