Leyndarmál súkkulaðibitanna

Súkkulaðibitakökur eru dásamlegt góðgæti.
Súkkulaðibitakökur eru dásamlegt góðgæti. mbl.is/skjáskot

Margur heldur að það sé nóg að kaupa tilbúna súkkulaðibita út í búð og fleygja út í deigið, sletta því á plötu, baka eins og ekkert sé eðlilegra og útkoman verði hreint stórkostleg.

En það er mikill misskilningur. Góð súkkulaðibitakaka krefst ástar og alúðar og það er svo sannarlega ekki sama hvernig að bakstrinum er staðið.

Hér eru nokkur leyndarmál sem tryggja að kakan standi undir væntingum:

Skerðu niður þína eigin bita. Ekki kaupa tilbúna bita í poka úti í búð. Kauptu frekar súkkulaðiplötu (eða stykki ef þú ert flipphaus og vilt nota t.d. Mars eða Bounty) og skerðu það niður sjálf/ur.

Gakktu skrefinu lengra. Ekki fara alveg eftir uppskriftinni. Settu örlítið meira af súkkulaði en uppskriftin kveður á um. Af hverju? Af því að það er betra.

Notaðu uppáhaldssúkkulaðið þitt. Hvort sem það er gamla góða suðusúkkulaðið frá Nóa eða pistasíusúkkulaði frá Omnom þá skiptir það ekki öllu. Uppáhalds skal það vera.

Ekki hræra of mikið. Blandaðu hráefninu vel saman og allt það en eftir að súkkulaðibitarnir eru komnir saman við skaltu ekki hræra of mikið.

Ekki gleyma saltinu. Salt er undraefni sem er algjörlega bráðnauðsynlegt í alla matargerð og þar með talið bakstur. Sama hvað þú gerir – ekki gleyma saltinu.

Kældu deigið. Áður en þú bakar kökurnar skaltu kæla deigið. Og af hverju? Jú, samkvæmt sérfræðingunum hvílir það glútenið (sem er auðvitað nauðsynlegt) og bragðið verður fyllra og meira. Við þrætum ekki og gerum bara eins og fyrir okkur er lagt.

Geymdu kökurnar á góðum stað. Segir sig sjálft – þessar forláta kökur þarf að geyma í lofttæmdum umbúðum, við kjörhitastig á góðum stað.

mbl.is