Döðlutertan sem fær fólk til að súpa hveljur

Líklega ein frumlegasta og fallegasta döðluterta á landinu.
Líklega ein frumlegasta og fallegasta döðluterta á landinu. mbl.is/TM

Þessa guðdómlegu uppskrift að Dillonstertu fengum við hjá Guðlaugu Sigurðardóttur, samstarfskonu okkar á Morgunblaðinu. Lauga, eins og hún er kölluð, er ekki aðeins ákaflega lekker og skemmtileg heldur er hún afrekskona í eldhúsinu eins og þessi terta sýnir sannarlega. Við skulum ekki einu sinni ræða meistaralegt útlit tertunnar en hún leit í raun út eins og stór bollakaka sem er klárlega smjörkremsbættur bökunardraumur margra. Súkkulaðismjörkremið, sem er viðbót við hina hefðbundu Dillonstertu, steinlá með tertunni. 

Tertuna bar Lauga fram með þeyttum rjóma og karamellusósu sem fékk hálft fyrirtækið til að fallast á hné og tilbiðja samstarfskonuna.

Dillonsterta – best beint úr ofninum 

235 g döðlur og smá vatn
1 tsk. matarsódi
120 g mjúkt smjör
5 msk. sykur
2 egg
3 dl hveiti
1/2 tsk. salt
1/2 tsk. vanilludropar
1 1/3 tsk. lyftiduft

Setjið döðlur í pott og látið smá vatn fljóta yfir. Látið suðuna koma
upp, slökkvið á hitanum og látið döðlumaukið bíða í pottinum í 3 mín.
Bætið matarsódanum saman við í pottinn.
Þeytið smjör og sykur vel saman og bætið eggjunum í. Blandið restinni
af hráefninu út í en döðlumaukinu síðast.

Bakað í einu springformi (með háum börmum, lausbotna) smyrja vel eða
nota smjörpappír.
Hitið ofninn í 180 gráður og bakið í 30-40 mín.

Karamellusósa
200 g smjör
200 g púðursykur
1 tsk. vanilludropar
2 dl rjómi

Sjóðið saman í 5 mínútur. Hrært stöðugt, og berið fram heitt í könnu
með volgri kökunni.

Sósan er tryllt. Mig langaði að baða mig í henni!
Sósan er tryllt. Mig langaði að baða mig í henni! mbl.is/TM
Takið eftir smáum silfurperlunum.
Takið eftir smáum silfurperlunum. mbl.is/TM
Lauga notaði blóm og lauf úr garðinum til að skreyta ...
Lauga notaði blóm og lauf úr garðinum til að skreyta tertuna. mbl.is/ TM
mbl.is