Sláðu um þig með alvöru cantucci (biscotti)

Svona lítur alvöru cantucci út. Sérlega girnilegt með kaffibollanum.
Svona lítur alvöru cantucci út. Sérlega girnilegt með kaffibollanum. Ásdís Ásgeirsdóttir

Fyrir þá sem dauðlangar að bjóða upp á alvöru ítölsk lekkerheit með kaffinu er þessi uppskrift algjörlega málið. Öll höfum við heyrt um biscotti en það þykir gríðarlega lekkert. Cantucci er víst alveg það sama en hljómar mögulega eins og það sé enn þá betra á bragðið.

Það er enginn munur á biscotti og cantucci en á ítölsku kallast allar kexkökur biscotti, sem þýðir einfaldlega „tvisvar bakað“.

Slíkar kökur hafa verið bakaðar í aldir en í gamla daga þurfti að baka kökur sem hægt væri að geyma í langan tíma. Talið er að Kólumbus hafi haft slíkar kökur meðferðis á ferðalögum sínum.

Þessi uppskrift kemur úr smiðju Ásdísar Ásgeirsdóttur sem þykir með þeim flinkari í ítalskri matargerð eftir vel heppnaða ferð hennar til Ítalíu á dögunum.

Alvöru cantucci (biscotti)
  • 500 g „00“ hveiti (fæst t.d. í Hagkaupum)
  • 300 g sykur
  • 3 egg
  • salt, ca. ½ teskeið
  • lyftiduft, ca. teskeið
  • 200 g möndlur
  • 125 g smjör

Aðferð:

  1. Blandið hráefnunum saman í skál. Hnoðið í höndunum öllu saman í góða kúlu. Skiptið henni í sex jafna hluta.
  2. Rúllið þeim í langar „pulsur“ og leggið á bökunarpappír á plötu.
  3. Bakið á 180°C í 30 mínútur. Takið út og skerið í 2 cm sneiðar. (Skerið á ská).
  4. Snúið sneiðunum á plötunni (gæti þurft tvær plötur núna) og bakið áfram í 5-15 mínútur, eða þar til gullinbrúnar.
  5. Guðdómlegar með kaffinu.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert