Hægt að drekka líkt og kaffi og te

Það eru þau Jón Örvar G. Jónsson og Björk Harðardóttir …
Það eru þau Jón Örvar G. Jónsson og Björk Harðardóttir sem standa að baki framleiðslunni. mbl.is/Bone & Marrow

Hér áður fyrr þótti fráleitt að henda beinunum enda var hægt að sjóða úr þeim magnað seyði sem innihélt kynstrin öll af næringarefnum og öðrum undraefnum sem losna úr beinunum við suðu. Þetta er því eitt af þessum vel geymdu leyndarmálum og nú loksins er hafin framleiðsla á því úr íslenskum beinum en það er fyrirtækið Bone & Marrow sem á heiðurinn að því.

Það eru þau Jón Örvar G. Jónsson og Björk Harðardóttir sem standa að baki framleiðslunni. Samstarf þeirra á rætur að rekja til Landbúnaðarháskólans þar sem þau kynntust. Brennandi áhugi þeirra á matvælaframleiðslu og umhverfisvernd og ekki síst því hvernig megi minnka matarsóun kom þeim á sporið en árlega er mörgum tonnum af dýrabeinum fargað. Að nýta þau með þessum hætti er því í senn afskaplega umhverfisvænt og snjallt enda er töluverð eftirvænting eftir því að seyðið komi í verslanir.

Seyðið er selt í krukkum og hægt er að hita það og drekka líkt og kaffi eða te. Það má líka setja saman við uppáhaldsrétt hvers og eins. Beinaseyðið er ein elsta heita máltíð mannsins og hefur þekkingin um það fylgt manninum í gegnum aldirnar. Eftirspurnin hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár, þá sérstaklega á Vesturlöndum en það hefur löngum verið talið að neysla þess sé styrkjandi fyrir húð, meltingu og liði.

Beinaseyðið er soðið úr íslensku vatni, íslenskum dýrabeinum, grænmeti og kryddjurtum. Beinaseyðið er soðið í 24-48 klst. og við suðu losnar kollagenprótein úr beinunum, fita úr mergnum og ýmis önnur efni úr brjóski og liðum, til að mynda glycosaminoglycans og amínósýrurnar glýsin, prólín og L-glútamín, auk annarra snefilefna.

Að sögn Jóns Örvars smakkast seyðið mjög vel. Það minnir kannski örlítið á kjötsúpu ef eitthvað er, segir hann og bætir við að bragðið sé fremur milt. Þessi fyrsta gerð sem kemur á markað er fremur mild en síðan verða fleiri gerðir í boði. Aðspurður hvort stefnan verði tekin á markaði erlendis segir Jón Örvar að markmiðið sé að koma þessu á markað hér til að byrja með og gera íslenskum neytendum tækifæri á að fá þessa gæðavöru. Ef til þess kemur að við förum á markað erlendis þá yrði það mjög spennandi.“

Seyðið verður í krukkum og er væntanlegt í verslanir fyrir …
Seyðið verður í krukkum og er væntanlegt í verslanir fyrir jól. mbl.is/Bone & Marrow
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert