Syndsamlega góð partý-ídýfa

Lítur út fyrir að vera bráðholl en undir leynist góðgætið …
Lítur út fyrir að vera bráðholl en undir leynist góðgætið sem gerir hana syndsamlega og sjúklega góða. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Flest tengjum við Berglindi við allt annað en grænmeti (kannski af því að hún er ókrýndur Íslandsmeistari í kökuskreytingum) en þegar við rákum augun í þessa ídýfuuppskrift vissum við um leið að þetta væri eitthvað stórkostlegt. 

Flest höfum við bragðað einhvers konar afbrigði af „eðlunni“ ógurlegu sem allir elska. Þessi útgáfa er gríðarlega spennandi þar sem hún er holl og lekker og ekki spillir fyrir að bera hana fram á svona fallegum diski eins og Berglind gerir.  

Nachos-dýfa

 • 1 lítil krukka salsasósa (medium)
 • 1 dós rjómaostur (við stofuhita)
 • 1 rauðlaukur
 • Iceberg (c.a ¼ haus eftir stærð)
 • 1 x rauð paprika
 • ½ púrrulaukur
 • Nokkrir sveppir (ca. 8 stk.)
 • Mini-tómatar og nokkrir hringir af blaðlauk til skrauts
 • Nachos (saltað/venjulegt finnst mér passa best og hringlóttu flögurnar frá Santa Maria henta vel)

Aðferð:

 1. Setjið salsasósu og rjómaost í hrærivélarskálina og blandið þar til kekkjalaust og létt í sér.
 2. Saxið rauðlauk mjög smátt og dreifið í botninn á þeirri skál/fati/bakka sem verður fyrir valinu.
 3. Smyrjið rjómaostblöndunni yfir rauðlaukinn.
 4. Saxið grænmetið smátt (nema tómata) og dreifið yfir blönduna (að sjálfsögðu má nota annað grænmeti, bara það sem ykkur þykir gott).
 5. Skerið nokkra mini-tómata til helminga og skreytið.
 6. Gott er að kæla nachos-dýfuna aðeins áður en hennar er notið en þó ekki nauðsynlegt.
Þessa dásemd mætti kalla úlfinn í sauðargærunni.
Þessa dásemd mætti kalla úlfinn í sauðargærunni. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is