Smákökurnar sem rústuðu keppninni

Kökurnar minna um margt á sörur.
Kökurnar minna um margt á sörur. mbl.is/KORNAX

Hér er mjög sterkt til orða tekið en þetta eru engu að síður smákökurnar sem unnu smákökusamkeppni KORNAX með glæsibrag. Það er Ástrós Guðjónsdóttir sem á heiðurinn af þeim og má segja um kökurnar að þær séu eins og unga og aðeins meira töff frænka Söru Bernharðskökunnar góðu sem við elskum öll.

Piparbragðið er allsráðandi og þær eru alls ekki svo flóknar.

Sjá frétt mbl.is: Ástrós kom, sá og sigraði.

Piparsveinar
Höfundur: Ástrós Guðjónsdóttir

Piparkúlukaramella
  • 2 pokar piparkúlur frá Nóa-Síríusi
  • 250 ml rjómi

Aðferð:

  1. Setjið piparkúlur og rjóma í pott, bræðið saman á miðlungshita og látið þykkna í pottinum. Það getur tekið smátíma.
  2. Mjög mikilvægt er að hræra í pottinum allan tímann, annars er hætta á að karamellan brenni við.
  3. Kælið í ísskáp ca 4-6 klukkustundir til að karamellan nái að þykkna, en ekki lengur svo að hún verði ekki of hörð.

Kókosbotn:

  • 125 g KORNAX-hveiti
  • 125 g sykur
  • 125 g kókosmjöl
  • 125 g smjör v/stofuhita
  • 1 egg

Aðferð:

  1. Öllu er blandað í skál og hrært saman. Gott er að byrja á að hræra deigið saman í vél og þegar smjörið er farið að mýkjast er gott að taka deigið upp úr og hnoða það betur saman með höndunum.
  2. Gerið litlar kúlur úr deiginu og fletjið aðeins út, setjið á plötu og inn í ofn.
  3. Kökurnar eru bakaðar við 180°C í 5-7 mínútur.
  4. Þegar botnarnir og karamellan eru tilbúin smyrjum við karamellunni á botnana og hjúpum þá með suðusúkkulaði frá Nóa-Síríusi. Einnig er fallegt að nota bráðið hvítt súkkulaði til skreytingar.
Sigursmákakan Piparsveinn.
Sigursmákakan Piparsveinn. mbl.is/KORNAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert